Bandaríski leikarinn Tom Cruise er sagður vera kominn með nýja konu upp á arminn. Sú heppna heitir Ana de Armas og er kúbönsk-spænsk leikkona sem margir ættu að kannast við, enda hefur hún farið með hlutverk í kvikmyndum á borð við Blonde, No Time to Die, Knives Out og Blade Runner 2049.
Töluverður aldursmunur er á parinu, eða 26 ár.
Cruise er 62 ára gamall en de Armas er 36 ára og aðeins örfáum árum eldri en elsta barn leikarans sem hann ættleiddi með fyrrverandi eiginkonu sinni, leikkonunni Nicole Kidman, árið 1992.
Orðrómur um nýfundna ást Cruise og de Armas náði nýjum hæðum síðasta fimmtudag, daginn fyrir Valentínusardaginn, þegar það sást til parsins láta vel að hvort öðru í Soho-hverfinu í Lundúnum.
Leikaraparið naut kvöldverðar á veitingastað í Soho áður en það fór í leigubíl.
Cruise, sem er þekktur kvennamaður, átti síðast í sambandi við hina 36 ára gömlu Elsinu Khayrovu, sem er rússnesk og þekkt úr samkvæmislífi hinna frægu og ríku, í byrjun síðasta árs. Ástin entist þó ekki lengi, en aðeins örfáum dögum eftir að fregnir um eldheitt ástarsamband þeirra birtist í heimspressunni var ástarloginn slokknaður.