Ný auglýsingaherferð bandaríska tískumerkisins Reformation, með grínistann Pete Davidson, sem er best þekktur fyrir hlutverk sitt í Saturday Night Live, í aðalhlutverki hefur vakið mikla athygli síðustu daga.
Myndirnar sýna Davidson, sem er 31 árs, í öðru ljósi en við erum vön, en uppistandarinn stillti sér upp fyrir myndavélina meðal annars á nærfötum einum klæða og sýndi líkama sinn án húðflúrs. Davidson hefur hægt og bítandi verið að láta fjarlægja húðflúr sín, sem töldu hátt í 200 og skreyttu líkama hans frá toppi til táar, síðustu ár.
Davidson, sem kallast einfaldlega „hinn fullkomni kærasti“ í auglýsingaherferðinni, hefur verið ansi vinsæll hjá kvenpeningnum síðustu ár og átt í ástarsamböndum við vel þekktar konur í Hollywood. Þar á meðal eru Kim Kardashian, Emily Ratajkowski, Ariana Grande, Kaia Gerber, Margaret Qualley, Kate Beckinson og Phoebe Dynevor.