Gamanþátturinn Saturday Night live, fagnaði 50 ára stórafmæli sínum um liðna helgi, þar sem glamúr og glæsileiki tók yfir borgina New York. Hátíðarhelgin hófst með látum föstudaginn 14. febrúar með stórkostlegum tónleikum, þar sem helstu tónlistarmenn heims tróðu upp.
Fagnaðarlætin voru þó aðeins rétt að byrja þar sem þriggja klukkustunda spunaþáttur var sýndur í beinni útsendingu á sunnudagskvöldið.
Kvöldið var stútfullt af ógleymanlegum atriðum, en meðal þeirra sem stigu á stokk voru tónlistargoðsagnir á borð við Paul McCartney, Bruce Spingsteen, Backstreet Boys, Bad Bunny, Chris Martin, Eddie Vedder, Lady Gaga, Miley Cyrus og Post Malone.
Söngkonan Cher fékk áhorfendur til að rísa úr sætum með kraftmiklum flutningi á einu vinsælasta lagi sínu, If I Could Turn Back Time. Hin 78 ára gamla söngkona sýndi og sannaði að tíminn hefur haft lítil áhrif á hana.
Það var þó ekki aðeins Cher sem heillaði áhorfendur, því hin þekkta leikkona Meryl Streep vakti einnig mikla athygli með óvæntri uppákomu. Í beinni útsendingu lyfti hún fingri að Will Ferrell og Ana Gasteyer í leikþætti þeirra á sviði, sem bæði kom á óvart og skemmti áhorfendum.
Hátíðin var ekki aðeins tónlistarveisla heldur einnig glæsileg endurkoma margra af helstu stjörnum sem hafa stigið á svið í hinu þekkta 8H-stúdíói í gegnum tíðina. Meðal þeirra sem komu fram voru þau Adam Sandler, Chris Rock, Eddie Murphy, Will Ferrel, Tina Fey og Kate McKinnon.
Hápunktur afmælishátíðarinnar var sjálfur SNL 50th Homecoming-þátturinn sem var sýndur sunnudagskvöldið 16. febrúar, þar sem gamlir og nýir meðlimir Saturday Night Live komu saman í tilefni af þessum mikla áfanga.
Gamlar senur voru endurgerðar, nýir sketsar slógu í gegn og kvöldinu lauk með sjálfum Lorne Michaels, skapara þáttarins, sem þakkaði öllum sem hafa lagt sitt af mörkum til að móta þættina síðustu 50 árin.