Bandaríska leikkonan Aubrey Plaza, sem er best þekkt fyrir hlutverk sitt í gamanþáttaröðinni Parks and Recreation, kom í fyrsta sinn fram opinberlega á sunnudag eftir að eiginmaður hennar, leikstjórinn Jeff Baena, fannst látinn á heimili þeirra þann 3. janúar síðastliðinn.
Leikkonan var ein fjölmargra Hollywood-stjarna sem fögnuðu hálfrar aldar afmæli gamanþáttarins Saturday Night Live í New York í gærdag og fékk hún það verkefni að kynna söngkonurnar Miley Cyrus og Brittany Howard á svið.
Plaza, sem stýrði þættinum í ársbyrjun 2023, lét lítið fyrir sér fara og kaus að ganga ekki rauða dregilinn ásamt öðrum gestum kvöldsins.
Baena, sem var 47 ára gamall og þekktur fyrir kvikmyndir á borð við Horse Girl, The Little Hours og Life After Beth, féll fyrir eigin hendi.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.