Brotist var inn á heimili stjörnuhjónanna Nicole Kidman og Keith Urban í Beverly Hills í Kaliforníuríki nú á dögunum.
Slúðurvefurinn TMZ greindi fyrstur frá tíðindunum.
Innbrotið átti sér stað um helgina þegar enginn var heima, en ónefndur starfsmaður hjónanna kom að heimilinu stuttu eftir að innbrotsþjófurinn hafði brotið sér leið inn í gegnum glugga. Hann flúði vettvang um leið og starfsmaðurinn mætti á svæðið.
Óljóst er hvort einhverju hafi verið stolið.
Kidman og Urban, sem hafa verið gift frá árinu 2006, festu kaup á húsinu árið 2008. Hjónin eiga einnig glæsihýsi í Nashville, tvö heimili í Ástralíu og íbúð í New York-borg.