Fyrrum parið, fyrirsætan Kendall Jenner og körfuknattleiksmaðurinn Devin Booker, virðast vera að blanda geði við hvort annað þessa dagana.
Þau sáust saman í Aspen, Colorado, um Valentínusarhelgina en myndir af þeim inni á veitingastað voru birtar á samfélagsmiðlum.
Jenner og Booker voru sundur og saman á milli 2020 og 2022. Myndirnar af þeim í Aspen koma aðeins sex mánuðum eftir að sást til þeirra í Instagram-sögu hvors annars á úrslitunum í fimleikum á Ólympíuleikunum á síðasta ári.
Ekki eru þetta einu skiptin sem þau virðast vera „á sama stað“, „á sama tíma“, en á Ofurskálinni 2024 enduðu þau í sömu VIP-svítunni á leikvanginum.
Hins vegar hefur það reynst aðdáendum Jenner erfitt að fylgjast með einkalífi hennar þar sem hún er ekki mikið fyrir að flíka því. Reyndar er Booker ekki eini fyrrverandi kærastinn sem Jenner hefur sést með að undanförnu, en hún hefur einnig sést með tónlistarmanninum Bad Bunny nokkrum sinnum síðan þau hættu saman 2023.
Þá var Bunny einnig í fremstu sætaröð þegar Jenner gekk pallinn fyrir Calvin Klein 7. febrúar á tískuvikunni í New York.