„Hann reyndi að skjóta mig þegar ég var 15 ára gamall, eftir að ég tæmdi úr öllum viskíflöskunum hans,” sagði leikarinn Richard E. Grant, sem er best þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Saltburn og hinni Óskarstilnefndu Can You Ever Forgive Me?, í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Begin Again í umsjón Davinu McCall nú á dögunum.
Leikarinn, sem er fæddur og uppalinn í Esvatíni, áður þekkt sem Svasíland, í Suður-Afríku, upplifði ofbeldi af hendi föður síns, Henrik Esterhuysen, sem glímdi við áfengisfíkn. Lífið á heimili Grant var alls enginn dans á rósum þar sem það geymdi mörg myrk leyndarmál.
„Ég var hálfnaður með að tæma úr elleftu flöskunni þegar hann setti byssu upp að höfði mínu. Ég forðaði mér, hljóp út í garð og reyndi að fela mig en hann fann mig fljótt og sagði: „Ég ætla að skjóta þig.“
Grant, sem var orðinn þreyttur á ástandinu, hvatti föður sinn til að skjóta sig, bara ljúka þessu af.
„Hann togaði í gikkinn, en þar sem hann var útúrdrukkinn og óstöðugur á fótum átti hann í erfiðleikum með að miða byssunni og halda henni stöðugri, skotið fór því fram hjá,” sagði leikarinn.
Faðir Grant beindi byssu að höfði sonar síns oftar en einu sinni á uppvaxtarárum hans og það þurfti ekki mikið til að æsa upp í honum reiði.
Grant laumaðist út úr húsi til að sjá kvikmyndina A Clockwork Orange ásamt félögum sínum eitt kvöldið og þegar hann sneri aftur heim beið faðir hans eftir honum með byssu í annarri hendi og flösku í hinni.
Esterhuysen lést af völdum lungnakrabbameins árið 1981, 51 árs að aldri.