Úrslitakvöld árlegrar uppistandskeppni á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands fór fram í Stúdentakjallaranum síðastliðið miðvikudagskvöld.
Fimm háskólanemar stigu á svið, dældu út bröndurum eins og enginn væri morgundagurinn og kepptu um titilinn „Fyndnasti háskólaneminn“.
Þar stóð uppi sem sigurvegari Oddur Sigurðarson, hagfræði- og stærðfræðinemi. Halldóra Elín Einarsdóttir, tómstunda- og félagsmálafræðinemi, var í 2. sæti og Fannar Gíslason, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, í þriðja.
Hlutu þau öll vegleg verðlaun frá Landsbankanum ásamt því að fá miða á árshátíð Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem fer fram á Hlíðarenda í vikunni.
Dómarar keppninnar voru Steiney Skúladóttir, Guðmundur Einar og Inga Steinunn Henningsdóttir.