Bianca Censori, eiginkona rapparans og athafnamannsins Kanye West, klæddist efnismeiri flík, ef flík má kalla, þegar hún mætti ásamt eiginmanni sínum á frumsýningu nýrrar kvikmyndar, sem skartar Censori í aðalhlutverki.
Censori, sem er þekkt fyrir að skilja lítið eftir fyrir ímyndunaraflið, huldi líkama sinn og andlit, er hjónin gengu hönd í hönd inn í iðnaðarhúsnæði í Los Angeles á laugardagskvöldið.
Ástralska fyrirsætan, sem er einnig menntaður arkitekt, klæddist síðri svartri skikkju og faldi andlit sitt þegar ljósmyndarar smelltu af þeim mynd.
Hjónin eru sögð hafa hagað sér undarlega á frumsýningunni, en þau sátu langt frá frumsýningargestum, umkringd öryggisvörðum, og Censori faldi sig undir skikkjunni allt kvöldið.
Getgátur hafa verið uppi um hvort að West hafi fengið aðra konu til að fylgja sér á frumsýninguna til að þagga niður í háværum skilnaðarorðrómi, en í síðustu viku var greint frá því að West og Censori hefðu ákveðið að fara hvor í sína áttina eftir ansi stormasamt samband.