Ísraelski lagahöfundurinn Ofir Cohen hótar að krefjast þess að lagið Róa eftir Inga Bauer og Væb-bræður, verði fjarlægt úr keppninni.
Cohen sakar höfunda um að hafa stolið hluta af viðlaginu úr ísraelska slagaranum Hatunat Hashana (sem einnig er vísað til sem Wedding of the Year), sem saminn var fyrir söngvarana Itay Levy og Eyal Golan.
Fram kemur í umfjöllun ísraelska dagblaðsins Israel Hayom að Cohen muni senda formlegt viðvörunarbréf til Væb-bræðra og RÚV á næstu dögum.
Þar krefst hann annars vegar bóta og/eða þess að fá sitt nafn skráð á þann hluta lagsins sem hann telur sig eiga, eða hins vegar að Róa verði felld úr keppninni.
Væb-bræður segja í samtali við Vísi að þeir hafi ekki haft neinn grun um tilvist ísraelska lagsins.
Cohen bendir þó á að auðvelt sé að nálgast tónlist hvaðan sem er úr heiminum í gegnum streymisveitur á borð við Spotify.
Cohen segir að ef ekki náist viðeigandi samkomulag verði leitað til Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) og þess krafist að lagið verði tekið úr keppninni.
Áður hefur komið upp svipað mál í Eurovision-sögunni þegar Jack White, höfundur lagsins Seven Nation Army, sakaði höfundana að Toy (sem vann keppnina árið 2018 fyrir Ísrael) um lagastuld.
Það mál leystist þó með samkomulagi þar sem White var skráður sem meðhöfundur og fékk hlutdeild í tekjum af laginu.
Ekki hefur komið fram hvort RÚV eða höfundar lagsins Róa hafi hafist handa við að semja við Cohen eða hyggi á aðra lausn.
Lagið vann Söngvakeppnina seinustu helgi og stendur til að Væb-bræður flytji það í stóru Eurovision-söngvakeppninni í maí, sem að þessu sinni fer fram í Sviss.
Hægt er að sjá bæði lögin hér fyrir neðan: