Magnús Midtbø, sem þekktur er á Youtube fyrir klifurhæfileika og skemmtileg myndbönd þeim tengdum, lét nýlega reyna á herpróf frönsku útlendingahersveitarinnar.
Franska útlendingahersveitin er úrvalsherdeild sem stofnuð var snemma á 19. öld og hefur ákveðinn goðsagnarblæ yfir sér.
„Ég tók herprófið sem engum er ætlað að standast,“ segir Magnús í nýlegu Youtube-myndbandi og lýsir því hvernig sparkað var í hann, öskrað og sprautað á hann vatni, auk þess að þurfa að glíma við aðrar hindranir, á meðan hann reyndi við erfiðar líkamlegar raunir prófsins.
Í lokin á myndbandinu má sjá Magnús hljóta heiðursmedalíu fyrir að hafa lokið prófinu.
Erlendir sjálfboðaliðar, sem koma hvaðan af í heiminum til að ganga til liðs við sveitina, byrja í fjögurra mánaða grunnþjálfun og eru þaðan sendir í sérhæfingarþjálfun í lágmark sex mánuði.
Margir þeirra koma frá þróunarlöndum í von um franskan ríkisborgararétt og að hefja nýtt líf í Evrópu, sem þeir eiga möguleika á eftir fimm ára þjónustu í sveitinni.
Magnús fékk hins vegar skilaboð frá fulltrúa sveitarinnar þar sem honum var boðið að koma sem fyrsti utanaðkomandi maðurinn í sögu sveitarinnar. Útskýrt var að komið yrði fram við hann eins og hvern annan „Legionnaire“, eða félaga sveitarinnar og prófin sem lögð væru fyrir hann væru þau erfiðustu sem sveitin hefði upp á að bjóða. Var honum lofað að þetta yrði erfiðasta vika lífs hans.
Til viðbótar við erfiðleikastig þjálfunarinnar sjálfrar bættust við samskiptaörðugleikar, en herþjálfarar öskra fyrirmæli yfir hópinn á frönsku og refsivert er að fylgja þeim ekki.
„Ekkert hefði getað undirbúið mig fyrir það sem koma skyldi,“ sagði Magnús um prófið.
Í hópnum sem hann tilheyrði voru upphaflega þrjátíu menn en aðeins átján voru eftir þegar hann slóst í hópinn.
Hann lýsti því meðal annars að hafa séð menn ganga frá bardagaprófi, haldandi uppi öðrum mönnum með blóðug nef og brotin rifbein.
„Það er allt annar agi hérna. Í hvert skipti sem þeir gera eitthvað vitlaust eru þeir lamdir í höfuðið eða sparkað í rassinn á þeim,“ sagði hann skjálfandi eftir að hafa eytt rúmlega tveimur klukkustundum í nístingsköldum sjónum, og tók fram að hann finndi ekki fyrir eigin fótleggjum.
Hermaður kom að honum þar sem hann talaði við myndavélina og sagði „ekki búið, ekki búið“, og neyddi Magnús til þess að halda áfram.
Um kuldann og krefjandi aðstæður í sjónum sagði hann um hermenn sem ekki voru syndir, „ég heyrði í þeim, það hljómaði eins og þeir væru að drukkna fyrir aftan mig“.
Eftir fyrsta daginn fékk Magnús sjö tíma svefn, sem er að hans sögn mjög rausnarlegt í þessum aðstæðum, enda fékk hann það aðeins vegna þess að daginn áður hafði hann lokið fyrra prófinu, og enginn hefur áður framkvæmt þessi tvö próf hvert eftir annað.
Á meðan hann fékk að njóta nætursvefnsins voru hermennirnir sem tóku prófið með honum sendir út, látnir vaka alla nóttina og ljúka „grimmilegum“ prófum.
Fyrsta prófinu lýsti Magnús sem „brjáluðustu 72 tímum lífs míns“.
Þar var hann meðal annars látinn hlaupa 1,5 kílómeter með 10 kílóa bakpoka, klifra upp kaðal án þess að nota fæturna, hlaupa 8 kílómetra í þungum stígvélum og með 11 kílóa bakpoka, gera svokallaða „Cindy“ æfingu sem felur í sér upphýfingar, armbeygjur og hnébeygjur, hoppa út í sundlaug með bæði hendur og fætur bundna saman og þurfa að synda yfir laugina og fleiri erfiðar æfingar.
Vert er að taka fram að einn hermaður gafst upp á prófinu eftir fyrsta hlutann, hlaupið með bakpokann.
Raunir Magnúsar úr fyrsta prófinu má sjá í youtube myndbandi hans síðan í lok desember.