Aðdáendur enska tónlistarmannsins Ringo Starr vilja ólmir fá að vita leyndarmálið á bak við unglegt útlit Bítilsins fyrrverandi.
Starr, sem fagnar 85 ára afmæli sínu í sumar, steig á svið tónleikahallarinnar Grand Ole Opry í Nashville á mánudagskvöldið og flutti nokkur af vinsælustu lögum Bítlanna, þar á meðal With a Little Help from My Friends, við mikinn fögnuð tónleikagesta.
Tónlistarmaðurinn, sem heitir réttu nafni Richard Starkey, vakti sérstaka athygli fyrir unglegt útlit sitt, en margir áttu erfitt með að trúa því að Starr væri á níræðisaldri, enda hoppaði hann um allt sviðið og hljómaði alveg eins og í gamla daga, eða þegar enska rokksveitin var á hátindi ferilsins.
Miklar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum að loknum tónleikunum, þá sérstaklega um hvernig tónlistarmaðurinn fari að því að líta svona vel út á níræðisaldri.
„Vá, 84! Hann hlýtur að hafa fundið æskubrunninn,“ skrifaði einn aðdáandi Starr.
Fjölmargir rituðu einnig athugasemdir við færslu sem tónlistarmaðurinn birti á Instagram-síðu sinni að loknum tónleikunum og hrósuðu frammistöðu hans og óbilandi lífskrafti.