Söng- og leikkonan Jennifer Lopez segir hárstílistann Jesus Guerrero, sem lést nýlega aðeins 34 ára, hafa ferðast með sér til Sameinuðu arabísku furstadæmanna stuttu fyrir andlátið. Þetta kemur fram á E News.
Viðskiptavinir Guerrero voru stjörnur á borð við Kylie Jenner, Kate Perry, Dua Lipa, Rosalía, Jessica Alba, Demi Moore og Jennifer Lopez. Systir hans, Gris, tilkynnti um andlátið á GoFundMe 22. febrúar.
Andlátið er sagt hafa borið skyndilega að.
Lopez deildi myndum á Instagram-síðu sinni þar sem hún merkti m.a. Guerrero á myndirnar þar sem hún var stödd á tónleikaferðalagi í Abú Dabí. Hún virðist nú hafa breytt þeirri færslu. Hins vegar setti hún inn mynd af Guerrero í gær með fallegum minningartexta um hann.
Fyrr í mánuðinum hafði Guerrero sett inn færslu á Instagram með myndum af söngkonunni og lagahöfundinum Kali Uchis, sem hann hafði stíliserað fyrir Grammy-verðlaunahátíðina. Það var síðasta færsla hans á samfélagsmiðlum.
Kardashian-systirin Kylie Jenner setti einnig inn fallega minningu um Guerrero á Instagram-síðu sína. Þar segist hún ekki einungis hafa misst góðan vin heldur einnig ljósið í lífi sínu.
Fleiri stjörnur hafa vottað Guerrero virðingu sína með fallegum færslum á samfélagsmiðlum.