„Þetta er mjög fjörug og skemmtileg sýning,“ segir Svanhildur Margrét Arnalds, sem er í stjórn Herranætur Menntaskólans í Reykjavík, auk þess að dansa í sýningunni Ástin er diskó, lífið er pönk sem verður frumsýnd í Gamla bíói í kvöld.
Leikritið er eftir rithöfundinn Hallgrím Helgason en leikstjóri er Katrín Guðbjartsdóttir.
Það var mikið fjör í Gamla bíói í gærkvöldi enda verið að undirbúa generalprufuna og afrakstur af mikilli vinnu nemendahópsins loks að komast á lokastig.
„Sögusviðið er Reykjavík á níunda áratugnum og sagan snýst um samskipti þeirra Rúnars og Júlíu, en þau eru hvort í sínum vinahópnum í bænum, hann í pönkhópnum og hún í diskóhópnum. Það eru harðar deilur milli hópanna, en svo er mikið að gerast og mikið fjör,“ segir Svanhildur.
Það er mikil tónlist í sýningunni og einnig er stór hópur dansara. „Það er fullt af dægurlögum sem fólk þekkir, bæði eftir Bubba Morthens og fleiri og svo eru líka mörg frumsamin lög eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson sem eru geggjuð,“ segir Svanhildur.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag