„Það er ánægjulegt að geta sagt frá þessu samstarfi. Okkur finnst það mikil viðurkenning að fá jafn mikla þungavigtarmenn sem þessa inn í verkefnið. Samhliða því að taka þátt í þróun á þessu verkefni okkar var Nicky að koma seríu tvö af Severance á koppinn, einni af stærri seríum Apple TV+,“ segir Andri Ómarsson, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Glassriver.
Andri og samstarfsfólk hans vinnur nú að nýrri þáttaröð fyrir Sjónvarp Símans. Þau hafa fengið til liðs við sig tvo þungavigtarframleiðendur; Marc Lorber, sem er fyrrum yfirmaður hjá Lionsgate, og Nicholas Weinstock, sem er einn höfunda og framleiðanda Severance á Apple TV+.
Þættirnir kallast Masquerade á ensku en hafa ekki enn fengið íslenskt heiti. Sagan hverfist um unga fréttakonu frá Bandaríkjunum sem rannsakar gamalt og óleyst hvarf fjögurra ára stúlku í litlu þorpi á Íslandi. Stúlkan var barnabarn valdamesta mannsins í þorpinu en hún hafði horfið 25 árum fyrr þegar fjölskyldan var í fríi á Flórída. Eftir því sem fréttakonan kafar dýpra í málið koma ýmis leyndarmál í ljós og svo virðist sem þeir sem báru ábyrgð á hvarfinu búi að líkindum enn í þorpinu.
Þættirnir eru gerðir fyrir Sjónvarp Símans. Andri segir að tökur fari fram í haust en ekki hefur enn verið ákveðið hvar þær fara fram. Þættirnir verða sýndir á næsta ári.
„Hugmyndin að þáttunum spratt upp hér innanhús og hafa verið lengi í þróun. Þeir Nicky og Marc hafa verið að vinna að þessu með okkur í meira en ár. Þættirnir gerast bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi og það hefur alltaf verið draumurinn að fá inn samstarfsaðila eins og þá.
Við erum líka að vinna að því að ráða erlent leikaralið og munum vonandi kynna það fljótlega. Serían hefur svo alla burði til að ferðast víða og við vonum að hún verði góð landkynning, viðurkenning fyrir okkur og kvikmyndagerð á íslandi.“
Þessir erlendu samstarfsmenn eru engir nýgræðingar. Weinstock hefur auk þess að þróa og framleiða Severence unnið að kvikmyndum á borð við Bridesmaids og þáttunum Escape at
Dannemora, In the Dark og High Desert. Lorber starfaði hjá Lionsgate í áratug og hefur síðan þá unnið við fjölda áhugaverðra kvikmyndaverkefna, þar á meðal að þáttunum Motherland sem hlutu Bafta-verðlaun.
Þættirnir eru hugarfóstur Andra Óttarssonar og Baldvin Z. Leikstjóri þeirra verður Baldvin Z en mikið einvalalið sá um handritsskrifin; Andri Óttarsson, Elísabet Hall, Urður Egilsdóttir, Karen Björg Eyfjörð Þorsteinsdóttir og Elías Helgi Kofoed-Hansen.
Nafnarnir Andri Ómarsson, sem er framkvæmdastjóri Glassriver, og Andri Óttarsson munu kynna þættina á Series Mania-ráðstefnunni síðar í mánuðinum.
Í umfjöllun sem birt var á vef The Hollywood Reporter í dag er haft eftir Weinstock að sagan í þáttunum sé snilldarvel samsett og hafi alla burði til að slá í gegn. Lorber hrósar samstarfi sínu við höfundana hjá Glassriver og segir verkefnið afar hrífandi.