Bandaríska sjónvarpskonan Sherri Shepard var lítt hrifin af fatavali nokkurra ungra Hollywood-stjarna sem gengu niður rauða dregilinn á Vanity Fair-fögnuðinum að lokinni Óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudag, klæddar ansi djörfum og ögrandi flíkum.
Í spjallþætti sínum á þriðjudag fór hún hörðum orðum um fataval rapparans Megan Thee Stallion og leikkvennanna Zoë Kravitz og Juliu Fox sem allar skildu lítið eftir fyrir ímyndunaraflið með kjólavali sínu.
Shepard, sem er 57 ára, sagði þær allar hafa farið yfir strikið.
„Ég segi þetta með ást: Dömur, svona á ekki að gera þetta. Og ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að það eru ungar stúlkur þarna úti sem líta upp til ykkar allra og þær munu vilja stæla ykkur,” sagði Shepard meðal annars.
Stallion, 30 ára, og Fox, 35 ára, hafa oftar en ekki valdið miklum usla með ögrandi og heldur sérkennilegu fatavali sínu, enda ófeimnar við að spóka sig um hálfnaktar við hin ýmsu tækifæri.
Kravitz, 36 ára, hefur þó lengi verið þekkt fyrir að vera ákaflega smekkleg á rauða dreglinum og kom hún því mörgum á óvart þegar hún mætti í svörtum kjól frá franska tískuhúsinu Saint Laurent sem sýndi beran afturenda hennar.