Það var varla þverfótað fyrir krökkum í silfurlituðum göllum með sólgleraugu á öskudaginn. Áhrif VÆB-strákanna, bræðradúósins sem sigraði undankeppni Evróvisjón, eru greinileg en þeir halda til Sviss í sumar. Á sama tíma virðist VÆB-æðið sækja sífellt í sig veðrið, enda seldust búningar strákana upp á augabragði.
Bræðurnir nýttu tilefnið og stigu á svið í Kringlunni í gær við góðar viðtökur. Samkvæmt heimildum mbl var öryggisgæsla Kringlunnar við öllu búin, enda ekki mörg ár síðan hlutirnir fóru úr böndunum og krakkar ruddust inn á lokað svæði sem olli miklum glundroða.
Hér fyrir neðan má sjá myndskeið af bræðrunum þar sem þeir koma fram við mikinn fögnuð. Óhætt er að segja að stemningin hafi verið gríðarleg.