Bandaríska leikkonan Christina Ricci fékk stjörnu á Hollywood Walk of Fame í Hollywood í gær, fimmtudag.
Ricci, sem er 45 ára, mætti ásamt eiginmanni sínum til fjögurra ára, hárgreiðslumanninum Mark Hampton, og tveimur börnum, hinum tíu ára gamla Freddie, sem hún á með fyrrverandi eiginmanni sínum, og hinni þriggja ára gömlu Cleopötru, sem hún á með Hampton.
Leikkonan, sem er einna þekktust fyrir hlutverk sitt sem Wednesday Addams í kvikmyndunum um Addams-fjölskylduna, kýs að halda fjölskyldulífi sínu utan sviðsljóssins. Það kom því mörgum á óvart að sjá hana stilla sér upp á rauða dreglinum ásamt eiginmanni sínum og börnum.
Ricci var einkar glæsileg í svartri dragt, pinnahælum og með slegið hárið.
Meðal þeirra sem heiðruðu leikkonuna voru meðleikkonur hennar úr þáttunum Yellowjackets, Melanie Lynskey, Liv Hewson og Tawny Cypress.