Enska söngkonan Florian Cloud de Bounecialle O’Malley Armstrong, betur þekkt undir listamannsnafninu Dido, skaust upp á stjörnuhimininn árið 1999 með fyrstu breiðskífu sinni, No Angel, sem innihélt lög á borð við Here With Me og Thank You, þá 28 ára gömul. Platan vakti mikla athygli þegar hún kom út og seldist í ríflega 21 milljón eintökum.
Dido, sem er í dag 53 ára gömul, er þúsaldarkynslóðinni vel kunn, enda var hún einn vinsælasti og verðlaunaðasti tónlistarmaður í heimi upp úr aldamótunum 2000.
Söngkonan hvarf að mestu úr sviðsljósinu fyrir rúmum áratug en hún kaus að draga sig í hlé til að sinna móðurhlutverkinu af fullum krafti.
Dido er fædd í Lundúnum þann 25. desember 1971, sannkallað jólabarn. Hún kemur úr mikilli listafjölskyldu, en móðir hennar er ljóðskáld, faðir hennar bókaútgefandi og eldri bróðir hennar, Rowland Constantine O’Malley Armstrong, eða Rollo, er tónlistarmaður og best þekktur sem liðsmaður rafpoppsveitarinnar Faithless.
Tónlistarhæfileikar Dido gerðu snemma vart við sig. Foreldrar hennar, Claire og William O’Malley Armstrong, skráðu hana í tónlistarnám við hinn virta Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum þegar hún var barnung og áður en um langt leið var hún búin að læra að spila á píanó, fiðlu og tréblásturshljóðfæri.
Í langan tíma sá hún ekki fyrir sér feril í tónlist og skráði sig í nám í lögfræði, en gafst upp á því þar sem tónlistin átti hug hennar og hjarta.
Rapparinn Eminem kom Dido á kortið vestanhafs þegar hann notaði línur úr lagi hennar, Thank You, til að fullkomna rappsmellinn Stan árið 2000. Eftir það ruku vinsældir hennar upp úr öllu valdi og fjórum árum seinna var hún í tíunda sæti yfir þá tónlistarmenn sem þénuðu mest árinu áður, eina konan á listanum.
Dido hefur aðallega fengist við tónlist bak við tjöldin síðustu ár, samið og sungið bakraddir fyrir aðra listamenn, meðal annars rafpoppsveit bróður síns.
Söngkonan hefur verið hamingjusamlega gift frá árinu 2010 og býr ásamt eiginmanni sínum, rithöfundinum Rohan Gavin, og 14 ára gömlum syni þeirra, Stanley, í Norður-Lundúnum.