Hópurinn KAJ vann Melodifestivalen, sænsku undankeppnina fyrir Eurovision, í gærkvöldi með lagi sínu Bara Bada Bastu.
Keppnin fer fram í Basel í Swiss í maí.
Sænsk-finnski hópurinn KAJ samanstendur af vinunum Kevin Holmstrom, Axel Åhman og Jakob Norrgård.
Hljómsveitin, sem er einnig grínhópur, var stofnuð í Finnlandi árið 2009 og hafa þeir gert tónlist og grínefni síðan þá.
Eurovisionworld spáir nú Svíþjóð sigri í keppninni.
Måns Zelmerlöw, sigurvegari Eurovision árið 2015, var spáð sigri í Melodifestivalen, en KAJ hreppti sigursætið og Måns lenti í öðru sæti.
Lagið er mjög hresst, en Bara Bada Bastu þýðir á íslensku „farðu bara í gufubað“, og í laginu eru ýmsar tilvísanir bæði í finnska og sænska menningu.
KAJ hafa gefið út sjö plötur, skrifað og sett upp tvo söngleiki í Wasa Teater, auk þess sem hópurinn var með stóra sýningu á leikvangi í tilefni 10 ára afmælis hans.