Hákon Pálsson ljósmyndari Morgunblaðsins fékk á dögunum að kíkja baksviðs og mynda stemninguna hjá leikhóp og aðstandendum sýningarinnar Storms en verkið var frumsýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 6. mars.
Með hlutverk í sýningunni fara þau Birta Sólveig Þórisdóttir, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Hildur Vala Baldursdóttir, Iðunn Ösp Hlynsdóttir, Jakob van Oosterhout, Kjartan Darri Kristjánsson, Marínó Máni Mabazza, Salka Gústafsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason og Una Torfadóttir.
Blaðamaður menningarinnar ræddi við þær Unni Ösp og Unu Torfa á menningarsíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 27. febrúar en brot úr því viðtali má sjá hér fyrir neðan.
„Ég var að fá brjálaða hugmynd, geturðu hitt mig í kaffi?“ Svona hljóðuðu skilaboð Unnar Aspar Stefánsdóttur til Unu Torfadóttur eftir að Unnur Ösp hafði heyrt hana syngja í þætti Gísla Marteins.
Þær kynntust fyrst í leikhúsinu þegar Una var í Tækniskólanum að læra klæðskurð og var í starfsnámi hjá Þjóðleikhúsinu. Þessi brjálaða hugmynd reyndist vera söngleikurinn Stormur sem Unnur Ösp og Una sömdu saman og áhorfendur fá nú að sjá á Stóra sviði Þjóðleikhússins í leikstjórn Unnar Aspar.
„Ég vissi ekkert að hún væri tónlistarkona en eitt kvöldið var hún mætt hjá Gísla Marteini með blátt hár að syngja lagið „Ekkert að“ og ég heillaðist algjörlega.
En þetta er fyrsta lagið sem hún kemur fram með opinberlega og söngleikurinn hverfist um en þar syngur hún um stórkostlega stelpu en þær snúa hvor í sína átt. Það er mikil saga í textunum hennar Unu og hún syngur frá mjög persónulegum stað. Út frá þessu lagi fæðist hugmynd að sögu sem verður efniviður í Stormi; að verða ástfangin af bestu vinkonu sinni,“ segir Unnur Ösp sem segist hafa verið mjög hrædd um að Una tæki illa í hugmyndina.