Þær sögur hafa gengið fjöllunum hærra síðustu mánuði að verðlaunaleikkonan Meryl Streep eigi í sambandi við gamanleikarann Martin Short.
Streep, 75 ára, og Short, 74 ára, kyntu allhressilega undir þessum orðrómi þegar þau sáust láta vel hvort að öðru á sýningu á Broadway-leikverkinu Oh Mary! í New York-borg á laugardagskvöldið.
Hollywood-stjörnurnar hlógu sig máttlausar að sögn viðstaddra og fóru baksviðs að sýningu lokinni þar sem þær spjölluðu við leikaraliðið og stilltu sér upp fyrir myndatöku.
Streep og Short voru þó ekki einu stórstjörnurnar í salnum.
Leik- og söngkonan Jennifer Lopez og nýjasti mótleikari hennar, Brett Goldstein, fylgdust spennt með sýningunni, sem fjallar um fyrstu forsetafrú Bandaríkjanna, Mary Todd Lincoln, og kíktu einnig baksviðs til að þakka fyrir sig.
Streep og Short hafa þekkst í mörg ár og leika um þessar mundir hjón í verðlaunaþáttaröðinni Only Murders in the Building, en tökur á fimmtu þáttaröð eru nýhafnar í New York.
Það hefur mikið sést til þeirra að undanförnu, utan vinnutíma, og virðast þau ávallt njóta sín vel saman.
Streep og Short voru meðal gesta í stjörnum prýddu fimmtugsafmæli Saturday Night Live um miðjan febrúar.
Parið sat hlið við hlið á fremsta bekk á Homecoming-tónleikunum sem haldnir voru á sjálfan Valentínusardaginn og mætti einnig í afmælisþáttinn þar sem það tók þátt í skemmtiatriðum kvöldsins sem gladdi viðstadda, þá sérstaklega atriði Streep, þar sem það var frumraun leikkonunnar í Saturday Night Live.
Grínistinn Amy Schumer sat við hlið parsins á Homecoming-tónleikunum og lét hafa það eftir sér að loknum hátíðarhöldunum að Short væri greinilega lofaður.