Bandaríski verðlaunaleikarinn Matt Damon var nær óþekkjanlegur á rauða dreglinum í Texas á laugardag. Damon var viðstaddur heimsfrumsýningu á spennumyndinni The Accountant 2 og skartaði þykku, gráu og tjásulegu skeggi og hári í stíl.
Damon, sem er 54 ára, var mættur til að styðja félaga sinn, leikarann og leikstjórann Ben Affleck, en sá fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni. Damon er einn af framleiðendum myndarinnar.
Leikarinn, sem er best þekktur fyrir hlutverk sín í stórmyndum á borð við Good Will Hunting, The Martian, The Bourne-seríuna og Saving Private Ryan, var heldur alvarlegur á svip og virtist annars hugar er hann stillti sér upp við hlið Affleck á rauða dreglinum.
Damon og Affleck hafa verið bestu vinir síðan í æsku og hafa starfað mikið saman í gegnum árin. Þeir skutust upp á stjörnuhimininn með Good Will Hunting árið 1997 og hrepptu Óskarsverðlaunin fyrir besta handritið tæpu ári síðar. Núna reka þeir framleiðslufyrirtækið Artists Equity.