Árni Sæberg ljósmyndari Morgunblaðsins gægðist bak við tjöldin í Borgarleikhúsinu á dögunum og fangaði stemninguna hjá leikhóp og aðstandendum sýningarinnar Þetta er Laddi, í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, sem var frumsýnd á Stóra sviðinu á föstudaginn.
Með hlutverk í sýningunni fara þau Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Birna Pétursdóttir, Björgvin Franz Gíslason, Halldór Gylfason, Hákon Jóhannesson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir og Vilhelm Neto að ógleymdum Ladda sjálfum, Þórhalli Sigurðssyni.
Blaðamaður menningarinnar settist á dögunum niður með höfundunum tveimur þeim Ólafi Agli Egilssyni, sem jafnframt leikstýrir verkinu, og Völu Kristínu Eiríksdóttur, sem fer með hlutverk spyrils og nokkurs konar stílfærðrar útgáfu af sjálfri sér í sýningunni.
Viðtalið við þau birtist í heild sinni í Morgunblaðinu fimmtudaginn 6. mars en brot úr því má sjá hér fyrir neðan.
Og hver er svo eiginlega þessi Laddi?
„Hann er svona flugeldur inni í skel,“ segir Vala sposk á svip og blaðamaður þakkar henni kærlega fyrir efni í góða fyrirsögn.
„Akkúrat,“ segir Ólafur og nefnir í kjölfarið að Laddi hafi þrátt fyrir alla sína feimni og hógværð ríka þörf fyrir að tengjast fólki.
„Og finna leið inn í hjörtu okkar með gríninu. Við reynum í sýningunni að kafa einmitt ofan í þetta tvíeðli Ladda. Er trúðurinn hinn raunverulegi Laddi og er feimnin gríman? Hvort er sannara? Hvernig varð feimni Þórhallur að skemmtikraftinum Ladda?“ segir hann til útskýringar.
„Ég held að við tengjum einmitt öll við þessa spurningu, svona almennt séð. Við erum öll bæði fyndin og feimin. Bara mismikið, á mismunandi tímum og innan um mismunandi fólk en ég held að við tengjum öll við þessa togstreitu,“ bætir hann við og Vala kinkar kolli til samþykkis.
Segja þau að þetta sé þannig séð verk um sammannlega hluti, en með Ladda sem útgangspunkt og miðju, og það sé búið að vera frábært að fá að kynnast honum og sjá hvernig hann nálgist og vinni hlutina.
„Laddi á stað í hjörtum okkar allra og það er einstakt að hafa fengið að taka þátt í því að búa til enn eitt Ladda-sjóvið því manni finnst eins og maður fái þannig að verða partur af hans ferilskrá og þeirri goðsögn sem hann er.
Það er í raun alveg magnað hvað hann hefur gert fyrir þessa þjóð sem hefur í gegnum tíðina svo sannarlega þurft á því að halda að láta létta sína lund, búandi hér í landi skammdegis og skafrennings.“