Óskarsverðlaunaleikarinn og einn þekktasti silfurrefur Hollywood, George Clooney, gerði á dögunum dramatískar breytingar á útliti sínu.
Clooney, sem hefur leyft gráu hárunum að njóta sín síðustu ár, var myndaður á götu í New York-borg á þriðjudag með nýlitað hár. Leikarinn, 63 ára, skartar nú súkkulaðibrúnu hári.
Útlitsbreytingin hefur vakið misjöfn viðbrögð en hún féll til að mynda ekki í kramið hjá eiginkonu Clooney, mannréttindalögfræðingnum Amal Clooney, og sjö ára gömlum tvíburum þeirra, Alexander og Ellu, að sögn leikarans.
„Hún hatar þetta og börnin hlæja bara að mér,“ sagði Clooney í samtali við blaðamann New York Times nýverið.
Bandaríski leikarinn þreytir frumraun sína á Broadway á næstu vikum í leikverkinu Good Night and Good Luck, en Clooney fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni árið 2005. Clooney litaði hárið fyrir hlutverk sitt í sýningunni.
Leikritið verður frumsýnt þann 3. apríl næstkomandi.