Gísli Örn Garðarsson vinnur nú að framhaldi á sjónvarpsþáttunum Verbúðin, sem sýndir voru við miklar vinsældir hérlendis á árunum 2021-2022. Þessu greinir bandaríska kvikmyndatímaritið Variety frá fyrst miðla. Framleiðandi er sem fyrr Vesturport og nefnist væntanleg sería Stick ‘Em Up, en ekki er búið að ákveða hver íslenskur titill þáttanna eigi að vera.
Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Erni Garðarssyni, sem skrifar þættina í samstarfi við Björn Hlyn Haraldsson og Mikael Torfason, hafa þeir verið að þróa seríuna í prógrammi sem skipulagt er á vegum hátíðarinnar Series Mania og verður serían kynnt á næstu hátíð sem haldin verður dagana 21.-28. mars í Lille í Frakklandi.
Þess má geta að Verbúð var valin besta sjónvarpsþáttaröðin á Series Mania-hátíðinni þegar hún var haldin árið 2021.
Samkvæmt frétt Variety verður Stick Em Up líka átta þátta sería líkt og Verbúðin.
„Þegar ríkisstjórn Íslands leitast við að endurheimta nýlega einkavæddan fiskveiðikvóta, gerir Harpa Sigurðardóttir, eigandi útgerðarfélags í Reykjavík, sér grein fyrir því að eina leiðin til að tryggja kvóta hennar er að ná yfirráðum yfir banka,“ segir Francesco Capurro, stjórnandi Series Mania Forum, en þess má geta að Nína Dögg Filippusdóttir fer með hlutverk Hörpu.
Capurro bætir því við að Gísli og Björn Hlynur séu „einstaklega hæfileikaríkir. Þeir hafa burði til að segja mjög staðbundnar sögur með alhliða skírskotun.“
Í samtali við mbl.is segir Gísli Örn að stefnt sé að tökum á næsta ári og frumsýningu öðru voru megin við áramótin 2026/2027.