Bandaríski áhrifavaldurinn sem braut gegn áströlskum lögum til þess eins að öðlast frægð á samfélagsmiðlum hefur beðist afsökunar á hegðun sinni.
Áhrifavaldurinn, ung kona að nafni Sam Jones, birti myndskeið sem sýnir hana hrifsa vamba-unga (e. baby wombat) úr fangi móður sinnar og hlaupa með hann, hálfhlæjandi, í burtu.
Myndskeiðið vakti mikla hneykslun í Ástralíu og víðar og reitti marga til reiði.
„Ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti,“ sagði Jones meðal annars „Þetta voru mistök. Það er nóg komið af hatri. Ég hef lært mína lexíu.“
Jones, sem er búsett í fjallafylkinu Montana í Bandaríkjunum, flaug frá Ástralíu í morgun, tæpum sólarhring eftir að stjórnvöld í Ástralíu tilkynntu að þau væru að endurskoða vegabréfsáritun hennar vegna atviksins.
„Ég get ekki beðið eftir því að Ástralía losi sig við þennan einstakling, ég býst ekki við að hann muni snúa aftur,“ sagði Tony Burke innanríkisráðherra, samkvæmt fréttastofu Associated Press.