Hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hlýtur Polarverðlaunin 2025 ásamt hljómsveitinni Queen og djasstónlistarmanninum Herbie Hancock. Þykja þau ein virtustu tónlistarverðlaun í heimi.
Hannigan er verðandi aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tekur við stöðunni haustið 2026.
Verðlaunin verða formlega afhent í Stokkhólmi þann 27. maí og hlýtur hver verðlaunahafi eina milljón sænskra króna eða rúmar 13 milljónir íslenskra króna.
Haft er eftir Hannigan í tilkynningu að hún sé djúpt snortin vegna heiðursins. „Þakka ykkur kærlega fyrir að bæta mér í þennan stórkostlega og áhrifamikla hóp verðlaunahafa.“
Þá segir Marie Ledin, framkvæmdastjóri Polarverðlaunanna, að Hannigan sé á einstakri vegferð sem sýni hugrekki. Framkoma hennar sé engu lík.
Meðal fyrri handhafa Polarverðlaunanna eru hin íslenska Björk Guðmundsdóttir, Paul McCartney, Bruce Springsteen, Peter Gabriel, Chuck Berry, Ennio Morricone, Led Zeppelin, Patti Smith, Stevie Wonder, Paul Simon, Joni Mitchell, Elton John og Metallica.