Hárgreiðsla söngkonunnar JoJo Siwa vakti mikla athygli á rauða dreglinum á iHeart Radio-tónlistarverðlaununum sem haldin voru í Hollywood. Það tók í kringum fjórar klukkustundir að ljúka við greiðslu og förðun Siwa.
Margir netverjar hafa líkt greiðslunni við þá sem Cindy Lou Who, karakter úr jólamyndinni sívinsælu How the Grinch Stole Christmas, var með.
Hárgreiðsla Siwa stóð beint upp í loft, en hárið var vafið í hring með aukahlutum skreyttum gimsteinum. Förðunin var í svipuðum anda og hárið. Yfir augun var hún með gimsteinaskreytta grímu og bleikan kinnalit.
Fötin hennar voru í sömu litapallettu og greiðslan en hún klæddist gallajakka við gallabuxur. Það sást vel í undirfötin sem voru ljósbleik frá ítalska tískuhúsinu Versace.
Það hefur ekki verið þægilegt að sitja fyrir aftan Siwa á hátíðinni.