Stuðningsmenn Palestínu trufluðu í gærmorgun stjörnuathöfn ísraelsku leikkonunnar Gal Gadot á hinum heimsfræga Frægðarstíg (e. Walk of Fame) á Hollywood Boulevard í Los Angeles.
Tugir mótmælenda fussuðu, úuðu og búuðu á meðan athöfninni stóð og héldu uppi skiltum sem á stóð: „Hetjur berjast eins og Palestínumenn” og „No Other Land hlaut Óskarinn”.
No Other Land, sem fjallar um yfirtöku ísraelskra hermanna á Masafer Yatta á Vesturbakkanum og bandalagið sem myndaðist á milli palestínska aðgerðasinnans Basel og ísraelska blaðamannsins Yuval, var valin besta heimildarmyndin á Óskarsverðlaunahátíðinni í byrjun mars.
Einnig mátti heyra þá hrópa: „Ekki annan eyri, ekki aðra krónu, ekki meiri peninga fyrir glæpi Ísraels” á meðan góðvinur Gadot, bandaríski hasarleikarinn Vin Diesel, flutti ræðu til heiðurs leikkonunni.
Gadot, sem mætti á athöfnina ásamt eiginmanni sínum, Yaron Varsano, og fjórum dætrum þeirra hjóna, hélt ró sinni allan tímann, brosti til viðstaddra, stillti sér upp fyrir ljósmyndara og flutti þakkarræðu.
„Ég er bara stelpa frá bæ í Ísrael. Þessi stjarna mun minna mig á að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi,” sagði hún meðal annars.
Leikkonan, einna þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Wonder Woman, hefur verið ötull stuðningsmaður heimalands síns frá því að Hamas-samtökin gerðu yfirgripsmikla árás gegn Ísrael að morgni 7. október 2023.