Bandaríska leikkonan Jaime King, sem er best þekkt fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum White Chicks og Sin City og þáttaröðinni Hart of Dixie, hefur misst forræði yfir börnum sínum, tveimur ungum drengjum, 9 og 11 ára.
Meginástæða þess er að leikkonan, sem hefur glímt við áfengis- og vímuefnavanda, lauk ekki sex mánaða fíknimeðferð sem hún var dæmd til að ljúka á síðasta ári.
Fyrrverandi eiginmaður King, kvikmyndagerðarmaðurinn Kyle Newman, fékk fullt forræði yfir sonum þeirra eftir að hafa staðið í harðvítugri forræðisdeilu við King síðustu ár.
Drengirnir munu búa hjá föður sínum en King var veittur heimsóknarréttur.
Leikkonan fær að hitta syni sína þrisvar í viku í skamman tíma í senn, en allar heimsóknir munu fara fram undir sérstöku eftirliti.
Newman sakaði King um að hafa neytt áfengis og fíkniefna þegar hún var ólétt af yngri syni þeirra þegar hann sótti um skilnað frá leikkonunni og forræði yfir börnum þeirra árið 2020.