Erró, Pétur og Helena Margrét verðlaunuð

Erró, Pétur Thomsen og Helena Margrét Jónsdóttir.
Erró, Pétur Thomsen og Helena Margrét Jónsdóttir. Samsett mynd

Íslensku myndlistarverðlaunin voru afhent fyrir stundu í Iðnó. Ljósmyndarinn og myndlistarmaðurinn Pétur Thomsen var valinn myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Landnám í Hafnarborg. Helena Margrét Jónsdóttir hlaut hvatningarverðlaunin og Erró hlaut heiðursviðurkenningu fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar.

Viðurkenningu myndlistarráðs fyrir áhugaverðasta endurlitið hlaut Gerðarsafn fyrir sýninguna Hamskipti | Listsköpun Gerðar Helgadóttur í sýningarstjórn Cecilie Gaihede. Sýning Textílfélagsins 50/100/55 í Hlöðuloftinu, Korpúlfsstöðum fékk viðurkenningu fyrir samsýningu ársins en sýningarstjórn var í höndum Ægis Zita. Loks var það Agnieszka Sosnowska og bók hennar FÖR sem fékk viðurkenningu fyrir útgefið efni.

Verðlaunin voru afhent í áttunda sinn í Iðnó í kvöld en að baki verðlaununum stendur myndlistarráð og er markmið verðlaunanna að vekja athygli á því sem vel var gert á sviði myndlistar á liðnu ári. Í dómnefnd voru Ásdís Spanó, Guðrún Erla Geirsdóttir, Ingólfur Arnarsson, Margrét Áskelsdóttir og Sigþóra Óðins.

Pétur Thomsen fagnar.
Pétur Thomsen fagnar. Ljósmynd/sundayandwhitestudio
Helena Margrét Jónsdóttir fékk hvatningarverðlaun.
Helena Margrét Jónsdóttir fékk hvatningarverðlaun. Ljósmynd/sundayandwhitestudio



Úr rökstuðningi dómnefndar:

Pétur Thomsen

„Sýningin Landnám er langtíma-ljósmyndaverk þar sem Pétur tekur fyrir sambýli manns og náttúru frá sjónarhóli ójafnvægis og áverka á jörðinni eftir umgang og framkvæmdir. Í verkunum má sjá rask á náttúrunni, líkt og sár eða rof í jarðvegi og merki um skeytingarleysi í umgengni mannfólks, sem listamaðurinn staldrar við og varpar ljósi á. Í aðalsal Hafnarborgar voru sýndar innrammaðar ljósmyndir án glers sem minntu á málverk á striga. Sumar voru í yfirstærð en einnig mátti finna verk sem voru samsett úr mörgum ljósmyndum og mynduðu eina heild.

Framsetningin kallar á nærveru áhorfandans og íhugun með listamanninum um þann boðskap sem hann vill færa fram: áminningu um áhrif mannsins á umhverfi sitt sem hefur leitt af sér hlýnun jarðar og náttúruvá. Sýningin í heild orkar sem eins konar ákall, svo óhjákvæmilegt er að spegla áhrif eigin tilvistar og tilveru á lifandi heim.

Mat dómnefndar er að Landnám sé einstaklega vel útfærð sýning, frá framkvæmd til framsetningar verkanna og að í henni megi skynja vitund um náttúruna og umhyggju fyrir henni. Með djúpri þekkingu á ljósmyndamiðlinum fangar Pétur Thomsen í verkum sínum inntak og hugmyndafræði sem á sýningunni umhverfist í samtal við áhorfandann á áhrifaríkan hátt.“

Sýning Péturs, Landnám, í Hafnarborg.
Sýning Péturs, Landnám, í Hafnarborg. mbl.is/Eyþór

Helena Margrét Jónsdóttir

„Helena Margrét hefur verið virk á sýningarvettvangi hér á landi og erlendis frá því að hún lauk námi. Hún hélt einkasýningu í D-sal Hafnarhúss, Listasafni Reykjavíkur árið 2023, Alveg eins og alvöru, þar sem myndefnið var eftirlíkingar af hlutum. Hún hélt einnig einkasýninguna Þú getur ekki fest þig í þínum eigin vef í Ásmundarsal árið 2022, þar sem kóngulær í ýmsum stærðum og við ólíkar aðstæður fönguðu athygli áhorfandans. Hún hefur einnig vakið verðskuldaða athygli víða erlendis, meðal annars í Mílanó, London og Peking.

Í verkum sínum beitir hún eiginleikum málverksins til að líkja eftir hversdagslegum og ímynduðum veruleika af mikilli nákvæmni. Viðfangsefni hennar eru oft fyrirbæri sem hún finnur í umhverfinu eða hinum stafræna heimi og teflir hún þeim saman á óhefðbundinn og oft afbakaðan hátt. Smávægilegar beyglur á dós eða kónguló í sleikibrjóstsykri nær að fanga andartakið og hægja á tíma og rúmi. Hún vísar til myndmáls skjásins þar sem skór, snakk eða hvítvínsglas er málað á einlitan víddarlausan bakgrunn, þar sem sjást hvergi skuggar né litbrigði. Hún kallar fram hughrif um það sem telst girnilegt og tært en á sama tíma óþægilegt og skrítið.

Mat dómnefndar er að málverk Helenu Margrétar Jónsdóttur séu forvitnileg og slái áhugaverðan tón í myndlistinni. Verk hennar eru vönduð og kyrrlát en á sama tíma með nýstárlegan undirtón sem virkjar ímyndunaraflið og færir áhorfandann inn í draumkenndan hugarheim. Helena Margrét sviptir hulunni af hefðbundinni birtingarmynd hversdagslegra hluta í málverki á afar sannfærandi hátt.“

Helena Margrét lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi.
Helena Margrét lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi. Ljósmynd/Aðsend

Erró

„Heiðursviðurkenningu myndlistarráðs árið 2024 hlýtur Erró, öðru nafni Guðmundur Guðmundsson, fæddur í Ólafsvík árið 1932. Erró er í fremstu röð myndlistarmanna sem Ísland hefur átt og hlýtur viðurkenningu fyrir höfundarverk sitt á ferli sem spannar rúmlega sex áratugi og er einstakt í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Verk Errós eru þekkt fyrir myndauðgi og honum hefur verið lýst sem rándýri og „gráðugum neytanda myndefnis“ sem vísar til þeirrar vinnuaðferðar hans að nota fundnar myndir af öllu tagi frá ýmsum menningarheimum sem hann safnar, flokkar og endurnýtir í uppröðun án stigveldis. Erró hefur einstakt auga fyrir samsetningum, en hafnar hugmyndinni um listamanninn sem snilling og frumskapanda. Upprunaleg róttækni hans felst í viljanum til að taka myndlistina niður af stalli hálistarinnar með notkun á alþýðlegu myndmáli. Hann var ungur maður sinnar samtíðar og hefur haldið áfram að endurnýja sig allt til þessa dags. [...]

Erró hefur sjálfur lýst sér sem myndasmið sem notar hráefni frá öðrum, en alltaf á þann hátt að hægt sé að þekkja fyrirmyndirnar. Á áttunda áratugnum voru verk hans oft með háðslegum pólitískum undirtón, en í þeim mátti einnig finna hin fjölbreytilegustu viðfangsefni um málefni úr sögu og samtíma sem vísa í ýmsar áttir og hægt er að flokka í aðskildar seríur. Verk Errós hafa verið sett í flokk með popplist, súrrealisma og fígúratífa málverkinu en þau sleppa undan slíkum skilgreiningum.

Verk Errós eru í sífelldri endurnýjun sem tekur mið af nýju hráefni. Þegar litið er til baka má í eldri verkum Errós og vinnuaðferðum sjá fyrirboða um póstmóderníska endurblöndun og gagnrýni á nýlendustefnu Vesturlanda en einnig birtingarmyndir flæðis myndefnis af öllum toga þar sem allt gerist samtímis alls staðar.

Málverk Errós afmá alla tilfinningu fyrir tíma og rúmi en eru á sama tíma spegill samtímans og sögunnar, ekki síst listasögunnar, þar sem verk fortíðarinnar eru dregin fram og sett í nýtt samhengi. Erró hefur á ferli sínum lagt sig fram um að nota myndmál sem allir geta skilið og notað miðla sem allir geta nálgast. Erró hefur þrátt fyrir áratuga búsetu í París viðhaldið sterkum tengslum við Ísland í gegnum safn verka og einkaskjala sem hann ánafnaði Reykjavíkurborg árið 1989. Þá hefur Erró stutt við ungar íslenskar myndlistarkonur í gegnum sjóð sem stofnaður var til minningar um Guðmundu S. Kristinsdóttur, móðursystur hans, árið 1997," segir í rökstuðningi dómnefndar.

Erró var heiðraður fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar.
Erró var heiðraður fyrir einstakt framlag til íslenskrar myndlistar. Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ástvinir vilja alla þína athygli og tíma ekki að deila henni. Forðastu að setja þig í slíka aðstöðu. Fjölmiðlar, fjarlæg lönd eða framhaldsnám eru ykkur einnig ofarlega í huga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sarenbrant
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Jill Mansell
4
Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ástvinir vilja alla þína athygli og tíma ekki að deila henni. Forðastu að setja þig í slíka aðstöðu. Fjölmiðlar, fjarlæg lönd eða framhaldsnám eru ykkur einnig ofarlega í huga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sarenbrant
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Jill Mansell
4
Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir