Geysilega hörð og erfið keppni

Stefán Ragnar tekur við stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar …
Stefán Ragnar tekur við stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar í haust.

„Það má segja að þetta sé eins og að vera kominn á toppinn á Everest. Þetta er einn sá mesti heiður sem hægt er að fá í tónlistarheiminum í dag,“ segir flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson sem á dögunum var valinn í stöðu fyrsta flautuleikara í Fílharmóníusveit Berlínar.

Er hann jafnframt fyrsti Íslendingurinn sem hlotnast sá heiður að vera ráðinn í hljómsveitina, sem er talin ein sú virtasta í heimi. „Þessi hljómsveit á sér sérstakan sess því það miðast allt við Berlínarfílharmóníuna. Kúltúrinn og gæðin, þetta er það besta sem hægt er að fá,“ segir hann uppnuminn.

Langur og farsæll ferill

Stefán Ragnar á að baki langan og glæstan feril en hann hefur búið og starfað í Bandaríkjunum í um 20 ár. Þá gegndi hann stöðu sólóflautuleikara hjá Metropolitan-óperunni á árunum 2008 til 2016 en hefur síðustu ár starfað sem fyrsti flautuleikari Chicago-sinfóníunnar. Hyggst hann ljúka starfsárinu þar með hljómsveitinni áður en hann flyst búferlum til Berlínar með fjölskyldu sinni.

Inntur í framhaldinu eftir því hver sé leiðin að slíkum árangri segir hann dugnað, elju og áhuga hafa skilað sér á þann stað sem hann sé kominn á í dag.

Stefán Ragnar ásamt föður sínum. Foreldrar hans studdu vel við …
Stefán Ragnar ásamt föður sínum. Foreldrar hans studdu vel við bakið á honum í flautunáminu.

„Ég fékk ótrúlegan stuðning sem barn og unglingur í mínu námi. Foreldrar mínir studdu mig rosalega mikið og við pabbi ferðuðumst til að mynda frá Austfjörðum til Reykjavíkur í hverjum mánuði í nokkur ár, frá því ég var níu ára og þar til ég varð 16 ára og fluttist suður. Ég bjó á Reyðarfirði en er fæddur og að mestu uppalinn í Neskaupstað og fyrir austan var ekki boðið upp á sambærilega kennslu og í Reykjavík. Pabbi kom mér því að í tímum hjá Bernharði Wilkinsyni sem var þá í Sinfóníuhljómsveit Íslands en hann var minn lærifaðir,“ segir hann og bætir við að á þessum tíma hafi hann lært að standa á eigin fótum.

„Ég þurfti að leggja hart að mér en samt kom þetta á einhvern hátt svo náttúrulega til mín. Mér fannst alltaf svo gaman að læra og finnst það enn þann dag í dag.“

Trúir þessu varla sjálfur

Að sögn Stefáns Ragnars var ferlið í kringum prufuspilið mjög taugatrekkjandi enda margir um hituna og samkeppnin því hörð.

„Þetta er eitt erfiðasta prufuspil sem hægt er að fara í en þar er farið í alla sauma. Þetta er það erfiðasta sem ég hef tekið þátt í á ævinni en það voru tugir flautuleikara í undanúrslitaumferðinni sem var á fimmtudegi. Það þurftu allir að standast ákveðin hæfniviðmið til að komast í lokaumferðina sem var daginn eftir en hópur fólks komst áfram í hana. Á þeim degi voru svo haldnar nokkrar umferðir sem fækkaði alltaf í en á þessum degi prufuspilaði ég samtals í sex klukkustundir. Þetta var geysilega hörð og erfið keppni svo þetta var alls ekki sjálfgefið. En ég komst í gegnum þetta allt saman og þetta var ótrúleg tilfinning. Ég trúi þessu varla sjálfur,“ segir hann og hlær.

Nánar er rætt við Stefán Ragnar á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ástvinir vilja alla þína athygli og tíma ekki að deila henni. Forðastu að setja þig í slíka aðstöðu. Fjölmiðlar, fjarlæg lönd eða framhaldsnám eru ykkur einnig ofarlega í huga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sarenbrant
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Jill Mansell
4
Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ástvinir vilja alla þína athygli og tíma ekki að deila henni. Forðastu að setja þig í slíka aðstöðu. Fjölmiðlar, fjarlæg lönd eða framhaldsnám eru ykkur einnig ofarlega í huga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofie Sarenbrant
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Jill Mansell
4
Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir