Fjölskylda bandaríska stórleikarans Gene Hackman hefur lagt fram beiðni til að koma í veg fyrir opinbera birtingu á niðurstöðum úr krufningu leikarans og eiginkonu hans, píanóleikarans Betsy Arakawa, ásamt frekari niðurstöðum rannsóknar lögreglu á andláti hjónanna og ljósmyndum sem teknar voru á heimili þeirra.
Hackman og Arakawa fundust látin á heimili sínu í Santa Fe í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum í lok febrúar.
Í beiðninni kemur fram að Hackman og Arakawa lifðu rólegu lífi og kusu að halda einkalífi sínu utan sviðsljóssins, sérstaklega eftir að Hackman lagði leikaraskóna á hilluna árið 2004.
Fjölskylda Hackman vill með þessu virða rétt sinn og þeirra til friðhelgi.
Að sögn heimildamanns The U.S. Sun þá er ansi óalgengt að aðstandendur reyni að koma í veg fyrir birtingu á niðurstöðum réttarlæknis.
„Að reyna að koma í veg fyrir birtingu á krufningarskýrslu er ansi óvenjulegt, þetta er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður,” sagði ónefndur heimildamaður í samtali við blaðamann The U.S. Sun.
„Það er algengt að fjölskyldur frægra einstaklinga reyni að koma í veg fyrir birtingu á ljósmyndum en ekki á niðurstöðum réttarlæknis.”
Julia Peters, fulltrúi dánarbús Hackman og Arakawa, hvatti héraðsdómstól í Santa Fe til að innsigla skjölin til að vernda einkalíf fjölskyldunnar og lagði sérstaka áherslu á sláandi eðli ljósmynda og myndbanda og möguleikann á dreifingu þeirra af hálfu fjölmiðla.
Dómari í Santa Fe lagði bráðabirgðalögbann á birtingu niðurstaðna og annarra gagna lögreglu og skrifstofu réttarmeinafræðings.
Hackman, sem var 95 ára og með hjartasjúkdóm og Alzheimers-sjúkdóminn, og Arakawa, sem var 65 ára, fundust látin á heimili sínu í Santa Fe í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum í lok febrúar.
Lík hjónanna sýndu bæði merki um niðurbrot. Andlit Arakawa var uppþembt og hendur hennar og fætur byrjuð að rotna.
Bandaríski stórleikarinn dó af náttúrulegum orsökum, líklega um viku á eftir eiginkonu sinni, og gerði sér, samkvæmt sérfræðingum, sökum heilabilunar, ekki grein fyrir því að eiginkona hans væri látin.
Arakawa lést af völdum hantaveiru, sjaldgæfum sjúkdómi sem berst úr nagdýrum í menn.
Einn af hundum hjónanna fannst einnig dauður nálægt Arakawa. Tveir aðrir hundar hjónanna voru enn á lífi.