Söngkonan ástsæla Laufey Lín Bing Jónsdóttir er að senda frá sér nýtt lag, titlað Silver Lining, þann 3. apríl næstkomandi.
Laufey tilkynnti um útgáfu lagsins á Instagram-síðu sinni nú á dögunum og birti skemmtilegt myndskeið af sér að syngja, eða öllu heldur að mæma, hluta af laginu með mikilli innlifun. Í stað míkrafóns þá notar hún einhvers konar grip, styttu eða verðlaunagrip, sem virðist virka vel.
Aðdáendur söngkonunnar voru ansi hrifnir af nýja lagabútnum og flutningi söngkonunnar, sem sveif um stofugólfið, ef marka má athugasemdir sem ritaðar voru við færsluna, en hátt í 300.000 manns hafa lækað við myndskeiðið á aðeins tveimur dögum.
Nokkrir aðdáendur Laufeyjar hafa einnig deilt sams konar myndskeiðum af sér að syngja og dansa líkt og hún gerir og því augljóst að eftirvæntingin er mikil.
Laufey hefur deilt þó nokkrum myndskeiðum af aðdáendum sínum í story á Instagram.
Árið hefur farið ansi vel af stað hjá Laufeyju.
Þann 6. janúar síðastliðinn fagnaði söngkonan eins árs sambandsafmæli hennar og kærasta hennar, Charlie Christie. Í tilefni þess birti hún krúttlegar paramyndir í story á Instagram-síðu sinni.
Í lok febrúar var hún á lista Time yfir þær konur sem hafa skarað fram úr á sínu sviði.
Í umfjöllun tímaritsins var bent á að Laufey væri hugsanlega eini tónlistarmaðurinn í heiminum sem fengi aðdáendur til að endurtaka djass-skautsólóin sín nákvæmlega – jafnvel á stórum tónleikum.