Stórleikarinn Gene Hackman og eiginkona hans, píanóleikarinn Betsy Arakawa, eru sögð hafa verið ásótt af ókunnugum manni stuttu áður en þau fundust látin á heimili sínu í Santa Fe í Nýju-Mexíkó í lok febrúarmánaðar.
Bandaríski fréttamiðillinn Fox News greindi frá þessu á mánudag og birti brot úr upptöku úr líkamsmyndavél lögreglumanns, sem sýnir frá samtali hans við hárgreiðslumann Arakawa heitinnar.
Í myndskeiðinu heyrist hárgreiðslumaðurinn segja að Arakawa hafi óttast um líf sitt og verið hrædd um að einhver væri að elta þau hjónin.
„Eitt tilvik var þegar þau fóru á White Rock. Þau fóru og borðuðu hádegismat þar og gaurinn elti þau frá bílastæðinu [fyrir utan lokaða hverfið þeirra], og alla leið að White Rock,“ fullyrti Christopher í myndbandinu. „Hún sagði við mig: „Christopher, mér finnst skrítið að öryggisgæslan hafi ekki [vitað] hvernig hann komst þangað... því þegar við fórum tók ég eftir því að þessi bíll hafði elt okkur frá húsinu og alveg að White Rock.“
Christopher minntist þess einnig að Arakawa hefði sagt honum að maðurinn hefði komið til þeirra Hackmans með „möppu af ljósmyndum“ sem hann vildi að leikarinn myndi árita fyrir sig.
Arakawa er sögð hafa beðið manninn um að virða friðhelgi þeirra. Maðurinn fór, að sögn Christopher, ekki eftir fyrirmælunum og mætti aftur örfáum dögum síðar og reyndi þá að gefa hjónunum vínflösku, sem þau neituðu að taka við.
Hackman, sem var 95 ára og með hjartasjúkdóm og alzheimers-sjúkdóminn, og Arakawa, sem var 65 ára, fundust látin á heimili sínu í Santa Fe.
Hundur þeirra fannst líka dauður á heimilinu.
Bandaríski stórleikarinn dó af náttúrulegum orsökum, líklega um viku á eftir eiginkonu sinni, og gerði sér, samkvæmt sérfræðingum, sökum heilabilunar, ekki grein fyrir því að eiginkona hans væri látin.
Arakawa lést af völdum hantaveiru, sjaldgæfum sjúkdómi sem berst úr nagdýrum í menn.