Harry Bretaprins segist eyðilagður yfir ákvörðun um að segja sig frá afrískum góðgerðarsamtökum í kjölfar deilna innan samtakanna.
Harry, sem einnig er titlaður hertoginn af Sussex, stofnaði Sentebale árið 2006 ásamt vini sínum, Seeiso prins af Lesótó, til minningar um látnar mæður þeirra.
Góðgerðasamtökin hafa einblínt á að styðja við bakið á ungu fólki, í Lesótó og víðar í suðurhluta Afríku, sem greinst hefur með HIV eða alnæmi.
Nú hafa báðir stigið til hliðar úr samtökunum vegna gagnrýni á stjórnunarhætti innan þeirra, sem verið er að rannsaka í Lundúnum.
Í sameiginlegri yfirlýsingu segja þeir Harry og Seeiso að það sem hafi gerst hafi verið nánast óhugsandi. „Fyrir næstum tuttugu árum stofnuðum við Sentebale til heiðurs mæðrum okkar. Sentebale þýðir „gleym mér ei“ á tungumáli Lesótó, og það er það sem við höfum lofað unga fólkinu sem við höfum þjónað í gegnum þessa góðgerðarstarfsemi.“
Deilurnar sem eiga sér stað segja þeir vera á milli trúnaðarmanna samtakanna og Dr. Sophie Chandauka, sem skipuð var stjórnarformaður í samtökunum í fyrra. Trúnaðarmennirnir eiga að hafa efast um að Dr. Chandauka hafi verið ákjósanlegasti kandídatinn í starfið.
Sjálf hefur Dr. Chandauka sagt að þetta sé týpísk saga konu sem hafi gagnrýnt lélega stjórnunarhætti, veika framkvæmdastjórn, misbeitingu valds, einelti, áreitni, kvenfyrirlitningu og yfirhylmingu.