„Verkið sem við frumsýnum núna með ÍD á sér nokkuð langan aðdraganda. Ferlið hófst með því að mér var boðið að vinna í Borgarleikhúsinu í Freiburg fyrir nokkrum árum. Ég mátti velja mér viðfangsefni en eina skilyrðið var að það hefði eitthvað með klassík eða þekktar fornsögur að gera og það að vinna með leikurum leikhússins.
Ég fékk með mér frábært listrænt teymi frá Íslandi og dró Íslenska dansflokkinn einnig með í þessa vegferð. Við frumsýndum í Freiburg í miðju covid og náðum að sýna nokkrar sýningar í Freiburg og Hamburg undir nafninu Orpheus + Eurydike (Die Orphischen Zyklen),“ segir Erna Ómarsdóttir dansari og danshöfundur, en Íslenski dansflokkurinn frumsýnir dansverk hennar, Hringir Orfeusar og annað slúður, í Borgarleikhúsinu í dag, föstudag.
„Þessi útgáfa sem við erum að frumsýna á morgun er um margt mjög ólík og að mörgu leyti jafnvel annað verk. Við erum til dæmis mun meira að leika okkur með tungumálið sem fyrirbæri, dans-tungumálið, íslensku, ensku, forn-grísku og táknmál. Öll listformin eru einnig notuð til þess að miðla þeim ólíku viðfangsefnum sem okkur þykir áhugaverð í þessum sögum, þótt dansinn sé okkar grunnur.
Gabríela Friðriksdóttir myndlistakona og Bjarni Jónsson dramatúrg unnu með mér upphaflegu hugmyndina fyrir Freiburg og það gerði líka Valdimar Jóhannsson, en hann ásamt Skúla Sverrissyni gerði tónlistina. Karen Briem búningahönnuður og Aðalheiður Halldórsdóttir, fyrrverandi dansari ÍD, og Pálmi jónsson ljósameistari eru svo frábær viðbót í listræna teymið núna.“
Erna segir vissulega ögrandi verkefni að skila ólíkri skynjun í dansverki, t.d. hvernig orð séu dönsuð og hvernig við sjáum tónlist.
„Mér hefur lengi fundist mjög gaman að leika mér með texta og orð, og það að vinna með röddina á svipaðan hátt og ég geri með dansinn hefur alltaf verið hluti af dansverkum mínum. Bullið hefur líka oft verið mjög mikilvægur þáttur í sköpunarferlinu því þar er undirmeðvitund og allskonar fleira sem leiðir mann svo oft í áhugaverðar áttir.
Tónlist, söngur og áferðir raddarinnar sem tengjast tilfinningum kannski meira og sumir myndu kalla óhljóð, eru mikilvægur þáttur líka enda hefur okkur stundum dottið í hug að kalla þetta jaðarsöngleik. Dansinn sem „ritual“ er búinn að fylgja mannskepnunni frá örófi alda og var einnig upphafið að sviðslistum í grískri menningu. Endurtekningar, sérstaklega með rödd og dansi, hafa mér lengi fundist áhugaverð viðfangsefni. Bæði nátengt náttúrunni en einnig í tengslum við margs konar trúarbrögð.
Það skref þegar dans og söngur voru bannfærð eða þegar dansinn og listin er álitin vera minna virði en eitthvað annað finnst mér því auðvitað alveg fáránlegt. Sem betur fer er skólakerfið sumstaðar eitthvað að endurskoða þessa hluti og ég held að það geti bjargað mörgu og mörgum.“
Erna segir að sér finnist rosalega gaman að vinna með stórum hópi hljóðfæraleikara og reyna að finna leiðir þar sem heimarnir mætast.
„Þar sem dansarar og hljóðfæraleikarar deila með sér plássinu á sviðinu, en uppáhaldshljómsveitin mín um þessar mundir, Skólahljómsveit Vesturbæjar, mun taka þátt í sýningunni. Dansararnir bera hita og þunga sýningarinnar, þetta er tíu manna hópur sem er alveg stórkostlegur, þau eiga mikinn þátt í að láta hugmyndirnar lifna við og verða að galdri, ég hef séð það gerast ítrekað.
Það er einstaklega gaman að vinna með þeim í verkefnum eins og þessu, sem er á mörkum listgreina og þar sem umfjöllunarefnið er einnig umbreytingin sjálf. Sköpunin sjálf og þar með talin listsköpunin, svo þetta verður vonandi einhverkonar skynfæraveisla.“
Ítarlegra viðtal við Ernu birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins í gær.