Leikkonan Tara Reid, sem gerði það m.a. gott í kvikmyndinni American Pie á tíunda áratugnum, lítur út fyrir að vera heilbrigð og hamingjusöm á ný eftir margra ára áhyggjur aðdáenda hennar yfir óeðlilegu þyngdartapi.
Í október 2021 gagnrýndi Reid athugasemdir vegna holdafars hennar eftir að hún setti mynd af sér í bikiníi á samfélagsmiðla og sagði myndina hafa verið tekna frá lélegu sjónarhorni.
„Hér er önnur mynd frá gærdeginum,“ sagði hún. „Til að sýna að ég er ekki of grönn. Ég er með há efnaskipti í líkamanum og þeir sem kljást við það sama skilja að það er ómögulegt að þyngjast,“ bætti hún við. „Ég geri fátt annað en að borða.“
Hún sagði í viðtali síðar sama ár að hún hefði alltaf verið grönn.
Reid mætti til frumsýningar kvikmyndarinnar Pabrik Gula í Los Angeles á miðvikudagskvöldið. Þá var ekki annað að sjá en hún hefði bætt verulega utan á sig og virtist líða mjög vel í eigin skinni.
Reid, sem er 49 ára, var glæsileg í gólfsíðu pilsi og svörtum leðurjakka. Ljósir lokkarnir léku lausir í krullum niður fyrir axlir og hún var með létta förðun.