Þrjár plötur með samsöng systkinanna Ellyjar og Vilhjálms Vilhjálmsbarna verða endurútgefnar í fyrsta sinn á vínil 11. apríl næstkomandi en bæði hefðu systkinin átt stórafmæli á árinu, Elly hefði orðið níræð og Villi áttræður.
„Okkur þótti þetta upplagt tilefni, það er stórafmæli systkinanna beggja, til að endurútgefa þessar plötur á vínil en þær hafa ekki verið fáanlegar síðan á áttunda áratugnum í því formi,“ segir Halldór Baldvinsson, útgáfustjóri Alda Music, um plöturnar.
Við erum að tala um Systkinin Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja saman, frá 1969, Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja kunnustu lög Sigfúsar Halldórssonar og Vilhjálmur og Elly Vilhjálms syngja lög eftir „Tólfta September“ en tvær þær síðarnefndu voru gefnar út 1970. Allar þrjár undir merkjum SG hljómplatna sem Svavar Gests eiginmaður Ellyjar starfrækti.
Systkinin sungu enn fremur inn á vinsæla jólaplötu 1971 en hún hefur verið endurútgefin á vínil. Allar komu þessar plötur líka út á geisla eða CD á sínum tíma.
Vel er í lagt að þessu sinni og plöturnar koma út á lituðum vínil. „Við gerum þetta að sjálfsögðu almennilega; annars tekur þessu ekki,“ segir Halldór léttur í bragði. „Það er gaman að hafa þetta með öðrum hætti núna, það eiga margir gamla svarta vínilinn ennþá.“
Halldór segir útgáfuna á umliðnum árum hafa fengið fyrirspurnir varðandi endurútgáfu á Elly og Villa en það eigi einnig við um ýmsa aðra listamenn. „Við erum með fullt planað þegar kemur að endurútgáfu á vínil, enda liggjum við á stórum katalóg.“
Plötur systkinanna nutu á sínum tíma mikilla vinsælda, ekki síst sú fyrsta, og Halldór segir marga eflaust bíða spennta eftir að eignast þær aftur í nýrri útgáfu, nú eða í fyrsta sinn.
Systkinin voru bæði stórstjörnur á hinu íslenska tónlistarsviði, saman og hvort í sínu lagi. „Og eru enn,“ segir Halldór. „Nægir í því sambandi að nefna sýninguna geysivinsælu um Elly í Borgarleikhúsinu. Þá hefur Villi verið heiðraður á tónleikasýningum líka. Fólk virðist ekki fá nóg af lögunum þeirra.“
– Þarf ekki að gera leiksýningu um Villa líka?
„Jú, það hlýtur að vera á planinu, þótt ég viti auðvitað ekkert um það sjálfur,“ svarar Halldór.
– Hvers vegna hafa lög þeirra systkina staðist svona tímans tönn?
„Vegna þess að þetta eru mjög góð lög, það er ekkert flóknara. Þess utan höfðu Villi og Elly bæði þessar sígildu dægurlagaraddir sem tískustraumar hafa engin áhrif á. Þau voru frábær hvort í sínu lagi en virkuðu líka vel sem dúett. Það kunna margir að meta þessar mjúku og þægilegu dægurtónlistarraddir. Það var enginn rembingur í Elly og Villa. Rokkslagarar voru ekki fyrir þau.“
Hann segir Svavar Gests einnig hafa átt stóran þátt í velgengni systkinanna enda stóð hann eins og klettur á bak við þau og átti drjúgan þátt í að velja lögin.
Nánar er fjallað um útgáfuna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.