Dr. Greg, stjórnandi vinsæls spjallþáttar í sjónvarpi, fær óvænt tilboð, þegar dæmdur raðmorðingi býðst til að gangast við enn einu ódæði sínu í þættinum, sem hann hefur ekki hlotið dóm fyrir, gegn einu skilyrði, að förðunarfræðingur sem starfar við þáttinn taki við upplýsingunum – augliti til auglitis. Doksi klórar sér í höfðinu og gerir með hraði boð eftir téðri sminku, sem hann vissi fram að því ekki að væri til. „Hvers vegna vill hann bara tala við þig?“
Þegar sminkan færist undan því að svara setur dr. Greg henni afarkosti: „Ég á von á öðru símtali frá morðingjanum á hverri stundu. Annaðhvort upplýsir þú mig um tengsl ykkar eða hann sjálfur?”
Sminkan lítur upp, vandræðaleg á svip og óörugg: „Hann er faðir minn!“
Þannig liggur landið í flunkunýjum bandarískum myndaflokki, Happy Face eða Broskallinum, en fyrstu þrjá þættina af átta má nálgast í Sjónvarpi Símans Premium. Byggt er á sannri sögu en raðmorðingi þessi, Keith Hunter Jesperson, var handsamaður um miðjan tíunda áratuginn og dæmdur fyrir morð á átta konum, þó grunur leiki á að fórnarlömb hans séu mun fleiri.
Dóttirin, Melissa, var 15 ára þegar faðir hennar var handtekinn og skar fljótlega á öll tengsl við hann; eiginmaður hennar veit af honum en börnum þeirra tveimur hefur verið haldið utan við málið. Bara sagt að afi þeirra sé löngu látinn og hvergi minnst á glæpi hans. Vinnuveitendum og kunningjum heldur hún sem lengst frá sannleikanum.
Það er að vonum þungbært að komast að því að faðir manns sé raðmorðingi, ekki síst í ljósi þess að samband þeirra feðgina hafði verið gott þegar Melissa var að vaxa úr grasi. Foreldrar hennar voru skilin en faðirinn samt nálægur, eins og hægt var, en hann starfaði sem trukkabílstjóri og var fyrir vikið mikið að heiman. Á ferðum sínum framdi hann morðin. Það er gömul saga og ný að jafnvel ægilegustu skrímsli geta átt sér sjarmerandi hlið.
Nánar er fjallað um Broskallinn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.