Chet Hanks, leikari og annar liðsmaður hljómsveitarinnar Something Out West, heiðraði föður sinn, verðlaunaleikarann Tom Hanks, í nýjasta tónlistarmyndbandi sveitarinnar við lagið You Better Run.
Í tónlistarmyndbandinu bregður Chet sér í gervi eins þekktasta karakters föður síns, Forrest Gump, úr samnefndri kvikmynd frá árinu 1994.
Chet, sem var aðeins fjögurra ára gamall þegar verðlaunakvikmyndin kom út, endurgerði nokkur af eftirminnilegustu atriðum kvikmyndarinnar og þar á meðal „Run, Forrest, Run“.
Í tónlistarmyndbandinu klæðist Chet ljósgráum jakkafötum og köflóttri skyrtu eins og faðir hans gerði í einni þekktustu senu kvikmyndarinnar, eða þegar Forrest Gump situr á bekk með konfektkassa og fer með setninguna: „Life is Like A Box of Chocolates. You never know what you’re gonna get“.
Ansi kunnuglegu andliti bregður fyrir í tónlistarmyndbandinu, en enginn annar en Tom Hanks fer með lítið hlutverk.
Leikarinn, sem hreppti Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt sem Forrest Gump, tyllir sér á bekk við hlið sonar síns og virðir meðal annars fyrir sér jakkaföt Chet, sem af svipnum að dæma, hann kannast við.
You Better Run var frumsýnt þann 28. mars síðastliðinn og hafa hátt í 250.000 manns horft á það á YouTube síðustu daga.