Leikkonan Kim Delaney, sem er einna þekktust fyrir hlutverk sitt sem rannsóknarlögreglukonan Diane Russell í þáttaröðinni NYPD Blue, og eiginmaður hennar, James Morgan, voru handtekin á heimili sínu í Los Angeles á laugardagsmorgun vegna gruns um heimiliserjur.
Lögreglan í Marina del Rey var kölluð að heimili Delaney og Morgan eftir að hjónaerjur þeirra fóru úr böndunum.
Bandaríski slúðurvefurinn TMZ greindi fyrstur frá og hafði eftir heimildamanni lögreglunnar að rifrildi hjónanna hefði magnast upp í slagsmál.
Delaney hefur verið ákærð fyrir árás með banvænu vopni og eiginmaður hennar fyrir minni háttar líkamsárás.
Hjónin munu mæta fyrir dómara á þriðjudag.
Delaney og Morgan fögnuðu tveggja ára brúðkaupsafmæli sínu þann 11. október í fyrra. Í tilefni dagsins birti Delaney fallega mynd af parinu á Instagram-síðu sinni og skrifaði falleg orð við færsluna.
Morgan er þriðji eiginmaður leikkonunnar.