Ekki tilkynnt um meiðsli í árekstrinum

Virginia Guiffre birti þessa mynd af sér af spítalanum.
Virginia Guiffre birti þessa mynd af sér af spítalanum. Skjáskot/Instagram

Lögregluyfirvöld í Ástralíu segja að engin meiðsli hafi verið tilkynnt í bílslysi sem talið er að Virginia Guiffre, sem var eitt meintra fórn­ar­lamba auðjöf­urs­ins Jeffreys Epsteins, hafi lent í.

Guiffre deildi færslu á sunnudaginn þar sem hún kvaðst eiga fjóra daga eftir ólifaða sökum nýrnabilunar eftir að hún lenti í bílslysi.

Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.

„Minniháttar árekstur“

Lögreglan í Vestur-Ástralíu, þar sem Guiffre býr, staðfesti við The Telegraph að „minniháttar árekstur“ hefði átt sér stað milli rútu og bíls í sveitabyggðinni Neergabby, sem er staðsett um 19 kílómetra norður af Perth, þann 24. mars rétt eftir klukkan 15:00 að staðartíma.

„Engin tilkynnt meiðsl urðu vegna árekstursins,“ sagði talsmaður lögreglu Vestur-Ástralíu í yfirlýsingu.

Áreksturinn var tilkynntur af bílstjóra rútunnar daginn eftir og bíllinn varð fyrir minniháttar skemmdum, að sögn lögreglu. Það hefur ekki verið staðfest opinberlega að þetta sé áreksturinn sem Guiffre fullyrðir að hún hafi lent í.

Virginia Guiffre komst fyrst í sviðsljósið árið 2015 þegar hún …
Virginia Guiffre komst fyrst í sviðsljósið árið 2015 þegar hún opinberaði meinta misnotkun auðkýfingsins Jeffrey Epstein gegn sér. Skjáskot/Youtube

„Þeir hafa gefið mér fjóra daga

Í færsl­unni seg­ist Guiffre þjást af nýrna­bil­un í kjöl­far slyss­ins og ósk­ar eft­ir að sjá börn­in sín í „síðasta sinn“ áður en hún deyr.

„Þeir hafa gefið mér fjóra daga og flutt mig á sjúkra­hús sem sér­hæf­ir sig í þvag­færa­lækn­ing­um,“ seg­ir hún við mynd­ina.

„En ég held það sé mik­il­vægt að hafa í huga þegar skóla­bíll kem­ur að þér á 110 km/​klst þegar við vor­um að hægja á okk­ur í beygju þá skipt­ir engu máli úr hverju bíll­inn er gerður, það gæti allt eins verið áldós.“

Þunglynd og vill sameinast börnum sínum

Sky Roberts, faðir Giuffre, sagði við The Telegraph í gær að dóttir hans væri þunglynd og vildi sameinast börnum sínum á ný.

„Henni líður ekki vel. Hún er þunglynd því hún saknar barnanna sinna. Hún á fjóra daga eftir nema hún fái annað álit frá öðrum lækni,” sagði hann og hélt áfram:

„Það gæti verið að hún láti lífið eftir fjóra daga, eins og hún sagði. En ef hún fær annan lækni, gætu þeir líklega gert aðra hluti fyrir hana. Svo það er það eina sem ég bíð eftir að heyra.“

Reynir að vera sterkur fyrir dóttur sína

Roberts sagðist vera að reyna að „halda sér sterkum“ fyrir dóttur sína, en síðasta þekkta heimilisfang hennar var hjá eiginmanni hennar, sem hún er nú skilin við, í Vestur-Ástralíu.

Giuffre skildi nýlega við Robert Giuffre, eiginmann sinn til 22 ára. Talið er að hún hafi búið í litlum bæ norður af Perth síðan 2020.

Talsmaður Giuffre sagði á mánudaginn: „Virginia hefur lent í alvarlegu slysi og er að fá læknishjálp á sjúkrahúsi. Hún er mjög þakklát fyrir stuðninginn og góðar óskir sem fólk er að senda.“

Segir að verið sé að eitra fyrir börnum sínum með lygum

Fyrir viku síðan birti Giuffre færslu á netinu um hversu mikið hún saknaði barnanna sinna, en af færslunni að dæma má gera ráð fyrir því að hún sé ekki með forræði yfir börnunum sínum.

„Mín fallegu börn hafa enga hugmynd um hversu mikið ég elska þau og það er verið að eitra fyrir þeim með lygum,“ skrifaði hún.

„Ég sakna þeirra svo mikið. Ég hef gengið í gegnum helvíti og aftur á mínu 41 ári en þetta er að skaða mig ótrúlega mikið, meira en nokkuð annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Velgengnin veltur á getu þinni til að brosa framan í erfiðleikana. Reyndu að njóta alls þess fallega og rómantíska sem gæti orðið á vegi þínum í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
3
Sofie Sarenbrant
4
Unni Lindell
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Velgengnin veltur á getu þinni til að brosa framan í erfiðleikana. Reyndu að njóta alls þess fallega og rómantíska sem gæti orðið á vegi þínum í dag.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
3
Sofie Sarenbrant
4
Unni Lindell
5
Arnaldur Indriðason