Fyrrverandi kærasta Andrésar prins, lafði Victoria Hervey, var harðorð í garð Virginiu Guiffre eftir að sú síðarnefnda setti inn færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagðist eiga fjóra daga ólifaða eftir að hafa lent í árekstri við rútu.
Engar staðfestingar hafa hins vegar borist um téðan árekstur, aðrar en að hann hafi verið minniháttar.
Hervey endurbirti færslu Guiffre í Instagram-sögu sinni í gær með orðunum „karma“. Færsla Guiffre sýndi myndir af henni illa útleikna á spítala eftir áreksturinn og sagðist hún hafa fengið nýrnabilun í kjölfarið og ætti fjóra daga ólifaða.
Í Instagram-sögu sinni sagði Hervey að Guiffre þyrfti einnig að gera „algjöra játningu“ eftir að hún kærði Andrés prins 2021 fyrir að nauðga sér þegar hún var 17 ára, sem átti að vera þáttur í mansalshring auðkýfingsins Jeffreys Epsteins.
Hervey bætti um betur og sagðist ekki trúa því að Guiffre væri dauðvona. Þá sagðist hún hafa vitneskju um að alríkislögreglan hefði nýlega farið að heimili Guiffre og væri með upptökur því til staðfestingar að Guiffre hefði játað að ásakanirnar á hendur Andrési prins væru ósannar.
„Hún ætlar að deyja þægilega til að forðast fangelsi,“ sagði Hervey. Hún hvatti einnig eiginmann Guiffre, Robert Guiffre, til að opinbera sannleikann bæði um meint bílslys og ásakanir Guiffre á hendur Andrési og öðrum.
Hún benti einnig á að á spítalamyndunum var Guiffre með skartgripi og klæddist ekki hefðbundnum sjúkrahúsklæðnaði.