Hollywood-leikarinn Val Kilmer er látinn, aðeins 65 ára. Hann er sagður hafa látist úr lungnabólgu á heimili sínu í Los Angeles í gær, eftir að hafa háð langa baráttu við krabbamein í hálsi sem hann greindist með árið 2015.
Lyfja- og geislameðferðir gerðu það að verkum að Kilmer átti í erfiðleikum með að tjá sig og þurfti hann að gangast undir tvennar barkaskurðaðgerðir. Árið 2021 lýsti hann því yfir að hann hefði sigrast á meininu.
Kilmer var einn farsælasti leikari níunda og tíunda áratugarins. Hann fæddist í Los Angeles 1959 og byrjaði í leikhúsi áður en hann þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu sem rokkstjarnan Nick Rivers í njósnamynd Jim Abrahams, Top Secret (1984).
Árið 1986 skaust hann upp á stjörnuhimininn sem Tom „Iceman“ Kazansky í Top Gun.
Kilmer hlaut mikið lof fyrir túlkun sína á söngvaranum Jim Morrison í kvikmyndinni The Doors (1991). Hægt er að segja að hann hafi náð ákveðnum hápunkti á ferlinum í kvikmyndinni Batman Forever eftir Joel Schumacher en myndin sló í gegn og þénaði yfir 336 milljónir dala.
Hann varð þó fyrir nokkrum skakkaföllum á ferlinum eftir m.a. deilur við meðleikara og leikstjóra.
Á miðlinum Page Six kemur fram að leikarinn hafi verið þekktur fyrir að vera skapstór og ákafur, en hann svaraði því eftirminnilega í viðtali 2003: „Þegar ákveðið fólk gagnrýnir mig fyrir að vera kröfuharður, held ég að það sé skálkaskjól fyrir eitthvað sem það sjálft gerði ekki vel. Ég held að þannig reyni það að verja sig.“
Kilmer kynntist eiginkonu sinni Joanne Whalley á tökustað Willow (1988). Eftir að þau giftu sig eignuðust þau saman tvö börn. Þau skildu árið 1996.
Síðasta hlutverk Kilmers var í kvikmyndinni Top Gun: Maverick (2023), framhaldsmynd klassíkurinnar sem kom út 1986. Í þeirri mynd átti hann stutta innkomu og deildi grípandi senu með Tom Cruise.