Dómur: Skynja fremur en skilja

„Sýningin markaði þannig á fallegan hátt lokin á tíu ára …
„Sýningin markaði þannig á fallegan hátt lokin á tíu ára farsælum ferli Ernu [Ómarsdóttur sem listræns stjórnanda Íd] en um leið upphafið að nýjum tímum,“ segir í rýni um Hringi Orfeusar og annað slúður. Ljósmynd/Owen Fiene

Frum­sýn­ingu Íslenska dans­flokks­ins á verki Ernu Ómars­dótt­ur Hring­ir Orfeus­ar og annað slúður bar upp á 28. mars 2025, dag­inn eft­ir að Lovísa Ósk Gunn­ars­dótt­ir tók við starfi Ernu sem list­rænn stjórn­andi flokks­ins. Sýn­ing­in markaði þannig á fal­leg­an hátt lok­in á tíu ára far­sæl­um ferli Ernu en um leið upp­hafið að nýj­um tím­um.

Hring­ur Orfeus­ar og annað slúður er unnið upp úr verk­inu Orp­heus + Eurydike sem Erna ásamt sínu ís­lenska list­ræna teymi samdi fyr­ir leik­ara Borg­ar­leik­húss­ins í Frei­burg fyr­ir nokkr­um árum en dans­ar­ar úr Íslenska dans­flokkn­um tóku einnig þátt í upp­færsl­unni. Verkið skyldi byggt á klass­ík eða þekkt­um forn­sög­um og valdi Erna að vinna með grísk­ar goðsagn­ir, nán­ar til­tekið ást­ir Orfeus­ar, son­ar guðsins Apollós og gyðjunn­ar Kallí­ópu, á dís­inni Evri­dís og ör­lög hans eft­ir að hún hverf­ur hon­um til Helj­ar. Inn í þá frá­sögn vef­ur hún mun eldri sögu af Demetru sem þurfti að sjá á eft­ir dótt­ur sinni til Helj­ar rétt eins og Orfeus.

Orp­heus + Eurydike var samið fyr­ir leik­ara og leik­hús en Hring­ur Orfeus­ar og annað slúður fyr­ir dans­flokk. Útkom­an úr sköp­un­ar­ferl­inu var því ólík þrátt fyr­ir að um sama efni væri að ræða. Það að færa verk úr einu list­formi, leik­list, yfir í annað, danslist, krefst end­ur­sköp­un­ar og nýrr­ar nálg­un­ar. Hring­ur Orfeus­ar er ekki í línu­legri frá­sögn með texta. Orfeus er þó þarna, líka Evri­dís, Hades, Demetrea, Pers­efón­ía, Ja­son, áhöfn­in á Argo, gullna reyfið, Medea, hættu­leg­ar kon­ur, drek­ar og skrímsli en þau eru ekki bara þau held­ur líka heild­in, hóp­ur­inn sem gef­ur áhorf­end­um til­finn­ingu fyr­ir því sem er að ger­ast frek­ar en skiln­ing. Það er heil­mik­ill texti í sýn­ing­unni en orðin segja áhorf­and­an­um ekk­ert endi­lega neitt vit­rænt held­ur flæða inn í heild­ræna skynj­un hans á ljósi, lit­um, hreyf­ing­um, form­um og rými.

Erna not­ar texta og rödd mikið í verk­um sín­um og ger­ir það vel. Hér ljær hún þeirri pæl­ingu aukna vídd með því að láta flytja/​dansa texta á mis­mun­andi tungu­mál­um, meðal ann­ars ís­lenska tákn­mál­inu. Diljá Sveins­dótt­ir, ung­ur dans­ari sem er heyrn­ar­laus frá fæðingu, var þar í aðal­hlut­verki og gaf áhorf­end­um inn­sýn í hvað tákn­málið get­ur verið fal­legt þegar það er vel talað/​dansað.

Fram­setn­ing Ernu á sög­un­um um Orfeus er hvorki línu­leg né vit­ræn. Eins og í verk­um henn­ar og Höllu Ólafs­dótt­ur um ann­ars veg­ar Rómeó <3 Júlía og hins veg­ar bara Júlíu þá eru sög­urn­ar af­byggðar og sett­ar sam­an á nýj­an leik út frá nýju og ekki síst kven­læg­ara sjón­ar­horni og áhersl­an fær­ist frá því sem ger­ist til þess sem upp­lif­ist og ekki síður mennsk­unn­ar og ómennsk­unn­ar. Sag­an fær á þenn­an hátt nýja og dýpri merk­ingu sem gef­ur áhorf­end­um kost á að finna fyr­ir henni frek­ar en að skilja hana.

Það er alltaf ákvörðun áður en farið er á dans­sýn­ing­ar sem byggj­ast á þekktu þema hvort betra sé að lesa sér til um efnið áður eða ganga inn í óviss­una og taka á móti því sem er. Und­ir­rituð ákvað að fara óles­in á þessa sýn­ingu og sjá hvort hún hrifi án þess að þekk­ing eða skiln­ing­ur væri fyr­ir hendi. Sýn­ing­in hreif svo sann­ar­lega. Sér­stak­lega fyrri hlut­inn. Þar var upp­bygg­ing­in sam­felld og fal­leg, hug­mynd­ir fengu að lifa og þró­ast akkúrat þann tíma sem þær þurfa áður en ný tók við. Það er hár­fín lína á milli þess að hug­mynd fái að lifa og njóta sín og þess að hún verði end­ur­tekn­inga­söm eða of stutt. Um­gjörðin, leik­mynd, bún­ing­ar, lýs­ing og hljóðheim­ur­inn, studdi kóreógrafíuna ein­stak­lega vel, ekki síst tón­list­in/​hljóðheim­ur­inn sem var mjög flott. Þegar tjaldið féll og ljós­in kviknuðu í saln­um, það var komið hlé, var stemn­ing­in orðin virki­lega sterk. Þá hefði verið frá­bært ef verkið hefði haldið áfram án þessa hlés. Það truflaði. Það er að sjálf­sögðu tak­mörk­un­um háð hvað dans­ar­arn­ir geta dansað lengi án hvíld­ar og það get­ur þurft að skipta um bún­inga og sviðsmynd en mikið hefði verið gott að fá að sitja og njóta lista­verks­ins án trufl­un­ar al­veg til enda.

Það voru fal­leg­ar og sterk­ar sen­ur eft­ir hlé eins og sigl­ing­in og þegar dans­ar­arn­ir unnu með gyllta og svarta efnið en það voru hug­mynd­ir sem fengu ekki næg­an tíma, eins og sen­an þar sem Andre­an/​Orfeus reis upp úr hringn­um með gyllt efnið utan um sig. Seinni hlut­inn var óþarf­lega lang­ur og það hefði mátt stytta verkið í þann end­ann í staðinn fyr­ir að teygja lop­ann í lok­in. End­ir­inn sjálf­ur var aft­ur á móti stór­skemmti­leg­ur en kannski ekki nauðsyn­leg­ur. Áhorf­end­ur tóku vel við sér þegar sviðið fyllt­ist af lúðrasveit­ar­krökk­um og dans­ar­arn­ir sungu há­stöf­um lagið „Words“ („Words don’t come easy …“) við und­ir­leik hljóm­sveit­ar­inn­ar. Snilld­arkveðja frá­far­andi list­d­ans­stjóra til áhorf­enda, sem tóku henni fagn­andi.

Hand­bragð Ernu leyndi sér ekki þegar horft var á verkið. Mörg kunn­ug­leg stef birt­ust áhorf­end­um í hreyf­ing­um, radd­beit­ingu sem og bún­ing­um og efn­um sem nýtt voru á sviðinu og báru þess merki hvað höf­und­ar­ein­kenni Ernu eru sterk. Verkið var samt eins og fágaðri út­gáfa af fyrri verk­um henn­ar. Það var ekki sami dýrs­legi kraft­ur­inn og oft áður, nokkuð sem und­ir­rituð saknaði aðeins.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Þú hefur einbeitt þér svo gríðarlega að markmiðum þínum og metnaði að undanförnu að annað í lífi þínu hefur þurft að sitja á hakanum. Rasaðu ekki um ráð fram.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Mar­grét Sig­urðardótt­ir
4
Ingi­björg Sig­urðardótt­ir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Vatnsberi

Sign icon Þú hefur einbeitt þér svo gríðarlega að markmiðum þínum og metnaði að undanförnu að annað í lífi þínu hefur þurft að sitja á hakanum. Rasaðu ekki um ráð fram.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Mar­grét Sig­urðardótt­ir
4
Ingi­björg Sig­urðardótt­ir