Dómur: Kröftugar kenndir kvikna

„Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson fara alla leið inn …
„Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson fara alla leið inn í kvikuna og miðla með kröftugum hætti þeirri djúpstæðu sorg og örvilnan sem Ennis og Jack glíma við,“ segir í rýni um Fjallabak í Borgarleikhúsinu. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Þegar horft er yfir leik­árið er áhuga­vert að sjá hversu áber­andi hinseg­in­leik­inn hef­ur verið í mörg­um upp­færsl­um vetr­ar­ins. Í því sam­hengi mætti nefna söng­leik­ina Við erum hér í Tjarn­ar­bíói, Storm í Þjóðleik­hús­inu, Dietrich í Sjálf­stæðissaln­um við Aust­ur­völl auk þriggja sýn­inga Borg­ar­leik­húss­ins, það er gam­an­leiks­ins Óska­lands, drama­tíska fjöl­skyldu­verks­ins Kött­ur á heitu blikkþaki og leik­gerðar­inn­ar á skáld­sög­unni Ung­frú Ísland.

Í öll­um þess­um verk­um er fjallað um hinseg­in ein­stak­linga og oft á tíðum sam­bönd, án þess þó að það hafi endi­lega verið í for­grunni. Ekki er ólík­legt að hér sé um að ræða viðbragð við því bak­slagi sem orðið hef­ur í rétt­inda­bar­áttu hinseg­in fólks víða um heim sem og hér­lend­is að und­an­förnu með til­heyr­andi hat­ursorðræðu, en sag­an hef­ur sýnt að því miður er þá oft stutt í ákveðna af­mennsk­un með til­heyr­andi of­beldi.

Upp­færsla Borg­ar­leik­húss­ins á leik­rit­inu Fjalla­bak, sem Ashley Robin­son bygg­ir á sam­nefndri smá­sögu Annie Proulx, fær­ir okk­ur magnaða sögu þar sem hinseg­in­leik­inn er í al­gjör­um for­grunni, ástar­sögu þar sem ást­in er í mein­um. Smá­sag­an, sem birt­ist fyrst í The New Yor­ker árið 1997, rataði eft­ir­minni­lega á hvíta tjaldið 2005 í leik­stjórn Angs Lee með Hollywood-leik­ur­un­um Heath Led­ger og Jake Gyl­len­haal í burðar­hlut­verk­un­um sem Enn­is Del Mar og Jack Twist. Óhætt er að segja að það séu djúp spor að fylla, en Hjört­ur Jó­hann Jóns­son og Björn Stef­áns­son gefa stór­stjörn­un­um hins veg­ar ekk­ert eft­ir.

Leik­gerðin er afar trú smá­sög­unni, þar sem hinn syrgj­andi Enn­is (Hjört­ur Jó­hann Jóns­son) ramm­ar inn frá­sögn­ina með því að hand­leika tvær vinnu­skyrt­ur sem þeir Jack (Björn Stef­áns­son) klædd­ust að Fjalla­baki í Wyom­ing sum­arið ör­laga­ríka tveim­ur ára­tug­um áður en leik­ur­inn hefst, þegar þeir voru báðir rétt inn­an við tví­tugt. Í fram­hald­inu hverf­um við 20 ár aft­ur í tím­ann, eða til árs­ins 1963, og fylgj­umst með Enn­is og Jack að Fjalla­baki. Þangað hafa þeir báðir ráðið sig sum­ar­langt til að gæta sauðfjár fyr­ir sléttu­úlf­um.

Fyrri hluti verks­ins hverf­ist nær ein­vörðungu um Enn­is og Jack, með ör­fá­um inn­kom­um verk­stjór­ans (Hilm­ir Snær Guðna­son). Þeir eiga það sam­eig­in­legt að hafa al­ist upp í fá­tækt og þurfa að taka hverri þeirri íhlaupa­vinnu sem gefst til að fram­fleyta sér. Í þess­um harðneskju­lega heimi er flask­an eina leiðin til að gleyma öm­ur­leika hvers­dags­ins. Smám sam­an kem­ur líka í ljós að báðir hafa þeir upp­lifað óhugn­an­legt of­beldi sem mark­ar að nokkru sýn þeirra á sam­fé­lagið, sam­ferðafólk og sam­skipti.

Í óbyggðunum kvikna kennd­ir sem menn­irn­ir tveir gera sér vel grein fyr­ir að sam­fé­lagið samþykk­ir ekki. En í frelsi fjall­anna freist­ast þeir til að gefa sig til­finn­ing­un­um á vald, þótt þeir eigi erfitt með að horf­ast í augu við lang­an­ir sín­ar, ekki síst Enn­is.

Leiktext­inn í þess­um fyrri hluta er af skorn­um skammti og stór hluti sam­skipt­anna á sér stað í þögl­um leik, þar sem augn­got­ur og lík­am­leg sam­skipti leika lyk­il­hlut­verk, hvort held­ur er í gamni­á­flog­um eða lík­am­legu sam­neyti, en oft á tíðum virðist afar stutt þarna á milli. Teygj­an í sam­leik leik­ar­anna tveggja rofn­ar aldrei og spenn­an helst áþreif­an­leg all­an tím­ann, hvort sem mikið eða lítið geng­ur á í sam­skipt­un­um. Í raun mætti lýsa þess­um fyrri hluta sýn­ing­ar­inn­ar sem masterklass í leik­tækni þar sem allt geng­ur upp.

Eft­ir hlé eru Enn­is og Jack komn­ir niður af fjall­inu og aft­ur inn í ramma sam­fé­lags­ins. Hér verða sam­töl­in fyr­ir­ferðarmeiri og per­són­ur fleiri, auk þess sem tím­aramm­inn er lengri, eða um tutt­ugu ár í stað ör­fárra mánaða eins og reynd­in var í fyrri hlut­an­um. Við sjá­um Enn­is í sam­skipt­um við eig­in­konu sína, Ölmu, sem Íris Tanja Flygenring túlk­ar af fal­legri inn­lif­un. Í sam­skipt­um þeirra má sjá hvernig Enn­is reyn­ir að standa sig sem fjöl­skyldufaðir, enda börn­in orðin tvö. Fá­tækt­in mark­ar þó líf þeirra og mögu­leika með af­ger­andi hætti. Fjór­um árum eft­ir sum­arið ör­laga­ríka liggja leiðir þeirra Enn­is og Jacks aft­ur sam­an og í fram­hald­inu hitt­ast þeir reglu­lega í veiðiferðum þar sem þeir eiga stoln­ar stund­ir. Þrátt fyr­ir að Jack sé líka kvænt­ur reyn­ir hann ít­rekað að sann­færa Enn­is um að þeir geti hafið nýtt líf sam­an með því að koma sér upp búg­arði. Báðir virðast þeir þó gera sér grein fyr­ir því að slík­ar skýja­borg­ir rúm­ast ekki inn­an þess sam­fé­lags sem þeir til­heyra. Frelsið varði aðeins eitt sum­ar, enda leggja þeir aldrei leið sína aft­ur að Fjalla­baki sam­an.

Þótt Fjalla­bak geti við fyrstu sýn virkað sem ein­föld saga með einu und­ir­liggj­andi þema er hún í reynd miklu marg­brotn­ari og opin til túlk­un­ar. Þannig er til dæm­is freist­andi að lesa marg­vís­leg krist­in tákn og biblíu­vís­an­ir inn í sög­una, þótt ekki verði farið nán­ar út í það hér. Fjalla­bak er sann­ar­lega saga um ást í mein­um þar sem hinseg­in per­són­ur fá að birt­ast sem djúp­ar til­finn­inga­ver­ur með öll­um sín­um flækj­um, vænt­ing­um, gleði og sorg­um. Frels­isþráin sem í verk­inu birt­ist er þó sam­mann­leg, því vilj­um við ekki öll fá að vera eins og við erum – og vera séð og elskuð eins og við erum?

Öll um­gjörð verks­ins þjón­ar fram­vind­unni og sögu­tím­an­um vel. Áhorf­end­ur sitja beggja vegna sviðsins sem virk­ar afar vel til að skapa nauðsyn­lega ná­lægð. Fyr­ir miðju sviði hef­ur Axel Hall­kell Jó­hann­es­son komið fyr­ir viðar­palli með raf­magns­staur sem Gunn­ar Hildi­mar Hall­dórs­son lýs­ir skemmti­lega þannig að skugg­inn kast­ast á vegg­ina bak við áhorf­end­ur þannig að við verðum hluti af heimi verks­ins. Í öðrum enda leik­rým­is­ins eru tjald­búðirn­ar að Fjalla­baki og baktjald sem nýtt er með hug­vit­sam­leg­um hætti til að varpa á það áhrifa­mikl­um nátt­úru- og stemn­ings­mynd­um. Stef­an­ía Ad­olfs­dótt­ir klæðir per­són­ur verks­ins með afar smekk­leg­um hætti í litap­all­ettu, snið og efni kú­reka­heims­ins sem per­són­ur verks­ins til­heyra. Tónlist Dans Gil­lespies Sells leik­ur stórt hlut­verk í því að skapa réttu stemn­ing­una og er af­bragðsvel flutt af Guðmundi Pét­urs­syni, Þor­steini Ein­ars­syni og Esther Tal­íu Casey, sem bregður sér jafn­framt létti­lega í ýmis smærri hlut­verk. Sig­ur­björg Þrast­ar­dótt­ir þýðir söng­text­ana af smekk­vísi og þýðing Maríönnu Clöru Lúth­ers­dótt­ur á leiktext­an­um er einkar þjál.

Sýn­ing­in ber vönduðu hand­bragði Vals Freys Ein­ars­son­ar sem leik­stjóra fag­urt vitni. Í upp­færslu Borg­ar­leik­húss­ins á Svartþresti fyr­ir tveim­ur árum sýndi Val­ur Freyr svo um munaði hversu frá­bær leik­ari hann er. Ekki aðeins hef­ur hann leik­tækn­ina full­kom­lega á valdi sínu held­ur nær hann að smjúga inn í kjarna per­són­anna sem hann leik­ur. Þá eig­in­leika nær hann að virkja með aðdá­un­ar­verðum hætti sem leik­stjóri, því Hjört­ur Jó­hann Jóns­son og Björn Stef­áns­son fara alla leið inn í kvik­una og miðla með kröft­ug­um hætti þeirri djúp­stæðu sorg og ör­viln­an sem Enn­is og Jack glíma við. Björn dreg­ur upp frá­bæra mynd af sprelli­gosa sem not­ar hlát­ur­inn til að breiða yfir sárs­auka sinn. Þetta sést hvað skýr­ast þegar hann seg­ir Enn­is sög­una af niður­lægj­andi sam­skipt­um við föður sinn. Hjört­ur túlk­ar hinn fá­mála Enn­is af miklu list­fengi, þar sem per­són­an reyn­ir sí­fellt að vera sterk og harka af sér, en brotn­ar reglu­lega þegar sorg­in ber hann of­urliði. Sam­leik­ur þeirra með til­heyr­andi nánd er ávallt full­kom­lega áreynslu­laus og trú­verðugur. Í leik­skrá kem­ur fram að Agn­ar Jón Eg­ils­son sá um nánd­arþjálf­un, en það er bæði til mik­ill­ar fyr­ir­mynd­ar hjá leik­hús­inu og skil­ar ríku­legri upp­skeru.

Fjalla­bak er mik­il­væg saga sem á sterkt er­indi við sam­tím­ann, því mann­rétt­indi eru ekki val­kvæð og til­veru­rétt­ur fólks er ófrá­víkj­an­leg­ur. Þannig á eng­in mann­eskja að þurfa að lifa í ótta um of­sókn­ir eða of­beldi. Þetta á líka við ef of­sókn­irn­ar grund­vall­ast á kyn­hneigð fólks eða kyn­vit­und. En mik­il­væg­ur boðskap­ur er ekki nóg til að skapa góða list held­ur þarf lista­verkið að upp­fylla háar list­ræn­ar kröf­ur. Það á svo sann­ar­leg­ar við um Fjalla­bak sem er kröft­ug og fal­leg sýn­ing sem lif­ir lengi með áhorf­end­um. Fjalla­bak er einnig síðasta sýn­ing­in sem frum­sýnd er í Borg­ar­leik­hús­inu í leik­hús­stjóratíð Bryn­hild­ar Guðjóns­dótt­ur, sem sýnt hef­ur djörf­ung í verk­efna­vali og tekið list­ræn­ar áhætt­ur sem hafa skilað sér ríku­lega.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Steingeit

Sign icon Ábyrgð og agi eru þínir styrkleikar í dag. Með því að halda festu og sýna úthald getur þú lokið einhverju sem hefur lengi verið í vinnslu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Eva Björg Ægis­dótt­ir
2
Stein­dór Ívars­son
4
Yrsa Sig­urðardótt­ir
5
Arn­ald­ur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Steingeit

Sign icon Ábyrgð og agi eru þínir styrkleikar í dag. Með því að halda festu og sýna úthald getur þú lokið einhverju sem hefur lengi verið í vinnslu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Eva Björg Ægis­dótt­ir
2
Stein­dór Ívars­son
4
Yrsa Sig­urðardótt­ir
5
Arn­ald­ur Indriðason