Belgíski leikarinn og bardagakappinn Jean-Claude Van Damme hefur verið sakaður um að hafa stundað kynlíf með nokkrum rúmönskum konum sem eru taldar fórnarlömb mansals.
Rúmenska fréttastöðin Antena 3 greindi frá því í gær, miðvikudag, að kæra hefði verið lögð fram hjá Directorate for Investigating Organized Crime and Terrorism, eða DIICOT, sem rannsakar skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk, þar sem því er haldið fram að Van Damme, 64 ára, hafi stundað kynlíf með að minnsta kosti fimm fórnarlömbum mansals.
Í kærunni kemur meðal annars fram að konunum hafi verið komið til Van Damme og að þær hafi verið einhvers konar „gjöf eða þakklætisvottur“ frá glæpahópi sem er talinn vera undir forystu rúmenska viðskiptamannsins og eiganda þekktrar fyrirsætustofu, Morel Bolea.
Meint brot áttu sér stað í Cannes á viðburði sem Van Damme skipulagði og stóð fyrir.
„Sá einstaklingur sem naut þessara fríðinda vissi um ástandið. Út frá vitnisburðunum er mjög ljóst að Jean-Claude Van Damme vissi að verið var að misnota þetta fólk,“ var haft eftir Adrian Cuculis, lögfræðingi eins fórnarlambsins.