Þegar Andrew Cooper, vellauðugur framkvæmdastjóri vogunarsjóðs, missir vinnuna sína þarf hann að hugsa út fyrir rammann. Hann þarf að sjá fyrir sjálfum sér, eiginkonu og börnum á táningsaldri, sem að vonum eru góðu vön. Að ekki sé talað um að viðhalda ímynd sinni. Og hvað gerir okkar maður? Jú, hann fer að stela af vinum sínum, skartgripum, merkjatöskum og öðru verðmætu. Eins og menn gera.
Við erum að tala um flunkunýjan gamandramamyndaflokk, Your Friends and Neighbors eða Vinir þínir og grannar, sem hægt verður að nálgast á streymisveitunni Apple TV+ frá og með 11. apríl. Með aðalhlutverkið fer Jon Hamm sem gerði garðinn frægan í Mad Men um árið. Amanda Peet leikur eiginkonu hans sem fer frá honum fyrir einn af bestu vinum hans og Olivia Munn fer með hlutverk konu sem hann slær sér upp með.